Samkomulag náðist í dag milli yfirstjórnar lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Lögreglufélags Reykjavíkur. Sátt er um að gefa sér góðan tíma til að vinna að lausn á deilu um nýtt vaktakerfi.
„Við erum að vinna þetta í samvinnu við Lögreglufélagið,“ sagði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði breytingar á vaktafyrirkomulagi muni taka gildi hvað varðar nýju lögreglustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Það náðist ágætis samkomulag,“ sagði Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur. Hann sagði að viljayfirlýsing sem Lögreglufélagið og Landssamband lögreglumanna lögðu fram 24. febrúar s.l. hafi orðið ofan á og að unnið verði eftir henni að hluta.
Unnið verður að drögum að samkomulagi sem lagt verður fram til
kynningar fyrir 1. júní. Arinbjörn sagði að þar væri verið að horfa til
aukins valfrelsis í vinnutíma. Með því er átt við að lögreglumenn geti
lagað vinnutímann að sínum óskum, t.d. með því að óska eftir að taka frí
sín á tilteknum dögum.
Vinnuskipulag þeirra lögreglumanna sem verið hafa á vöktum í almennu deildinni verður óbreytt i sumar. Stefán sagði að yfirstjórn lögreglunnar og Lögreglufélagið ætli að gefa sér maí mánuð til að ræða vinnuskipulagið og ná sem bestri sátt um málið. Stefán sagði horft til þess að nýtt fyrirkomulag geti tekið gildi í september n.k.
Með nýju skipulagi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verða lögreglustörfin færði í meiri mæli út á lögreglustöðvarnar. Gert er ráð fyrir að það skipulag taki gildi í byrjun maí n.k. Lögreglumenn sem starfað hafa í deildum á borð við rannsóknadeild, forvarnadeild, fyrirkallsdeild o.fl. fara út á stöðvarnar.
Starfsstöðvar lögreglu höfuðborgarsvæðisins verða í Austurbæ, Vesturbæ, Mosfellsbæ, Kópavogi og Hafnarfirði.