Nokkur skjálftavirkni hefur verið suðsuðaustur og austur af Grímsey sl. hálfa sólarhringinn samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar. Þannig mældist skjálfti rétt rúmir 2 á Richter tæplega hálftólf í gærkvöldi 4,5 km austur af Grímsey. Rúmlega sex í morgun mældust tveir skjálftar í kringum 3 á Richter í um 16-19 km fjarlægð suðsuðaustur af Grímsey.
Að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, jarðfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hefur talsverð skjálftavirkni mælst fyrir norðan land þar sem af er viku. Hins vegar sé þetta ekki meiri virkni en oft sjáist á þessum slóðum. Aðspurð segir hún ólíklega tð íbúar í Grímsey hafi fundið fyrir skjálftunum þar sem upptök þeirra séu í það mikilli fjarlægð frá eynni.