Tvö óstaðfest tilfelli

Tveir Íslendingar sem komu frá Bandaríkjunum fyrir nokkrum dögum verða rannsakaðir vegna veikinda sem þeir þjást af. Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, segir þeir hafa verið með einhvers konar óþægindi. Einkennin væru óljós og ólíklegt að um svínaflensu sé að ræða. Þetta kom fram á fundi með sóttvarnarlækni og almannavörnum í dag.

Endanleg niðurstaða vegna mannanna tveggja ætti að taka nokkra daga. Sýni úr þeim verða tekin í dag.

Einnig kom fram að sett verður í gang áætlun í Leifsstöð í kvöld. Aðallega verður um upplýsingagjöf til ferðamanna frá Mexíkó að ræða. Einnig verður sett upp aðstaða í Leifsstöð fyrir þá sem finna fyrir veikindum. Þar verða heilbrigðisstarfsmenn til taks sem geta tekið sýni ef þurfa þykir. Þeir munu einnig ákveða næstu skref meðferðar viðkomandi.

Séu ferðamenn með einkenni verður líklega farið í framhaldsmeðferð. Ekki kemur til einangrunar.

Haraldur segir fullljóst að fleiri ferðamenn muni koma sem hafi einhvers konar einkenni, enda komi hingað til lands mikill fjöldi ferðamanna. Engin sérstök hætta sé þó á ferðum. 

Einnig verði að hafa í huga að öll tilvik fyrir utan Mexíkó hafa verið væg og auðveld viðureignar.

Enn hefur ekki verið upplýst um hvers vegna skæðustu tilvikin eru staðbundin í Mexíkó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert