29% forstöðumanna ríkisstofnana konur

Reuters

Konur eru 29% forstöðumanna ríkisstofnana í janúar 2009. Ári áður var hlutfallið 25%. Meðalaldur forstöðumanna er nokkru hærri en meðalaldur ríkisstarfsmanna í heild. Forstöðumenn eru 54,5 ára að meðaltali, konur 49,6 ára og karlar 56,4 ára. Þetta kemur fram í fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana. Eins og áður eru stofnanir utan framkvæmdavaldsins undanskildar þ.e. Alþingi, stofnanir þess sem og dómstólarnir.

Konur eru í nokkrum meirihluta forstöðumanna undir fimmtugu, eða 30 á móti 18 körlum. Aftur á móti eru 29 konur meðal þeirra 159 forstöðumanna sem eru 50 ára eða eldri.

„Að lokum er athyglisvert að líta til þess hve stórt hlutfall ríkisstarfsmanna starfar hjá stofnunum þar sem kona er forstöðumaður, en hlutfallið er nokkuð jafnt. Eins og sést á myndinni er kona æðsti yfirmaður (forstöðumaður) um 46% ríkisstarfsmanna, þrátt fyrir að þær séu aðeins tæp 30% forstöðumanna. Skýrist það einkum af af því að forstöðumenn tveggja stærstu ríkisstofnananna, Landspítala og Háskóla Íslands, eru konur," að því er segir í fréttabréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert