Áskorun um endurskoðun ákvörðunar

Landspítalinn-háskólasjúkrahús
Landspítalinn-háskólasjúkrahús mbl.is/ÞÖK

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítalans lýsir yfir miklum áhyggjum vegna fyrirhugaðrar sameiningar á bráðamóttökum Landspítala. Hjúkrunarráð telur verulegar líkur á að breytingin muni leiða til skertrar þjónustu við sjúklinga og stefna öryggi ákveðinna hópa þeirra í hættu.

Hjúkrunarráðið telur einni hætt við að þeim árangri sem náðst hefur í meðferð ákveðinna hópa sjúklinga sé ógnað. Þetta kemur fram í ályktun hjúkrunarráðsins. Þar segir einnig:

„Hópar fagfólks á Landspítala unnu nýverið áhættumat vegna fyrirhugaðra  breytinga og lögðu drög að nýjum verkferlum vegna móttöku sjúklinga á sameinaðri bráðamóttöku. Áhersla var lögð á að skoða áhrif þessara breytinga á öryggi sjúklinga og þjónustu við þá. Niðurstöður allra hópanna voru að við sameininguna skapist mikill kostnaður sem leggist á önnur svið spítalans en slysa og bráðasvið ef tryggja á öryggi og viðhalda sömu þjónustu. Fjárhagslegur ávinningur af sameiningunni liggur því ekki fyrir.

Niðurstöður hópanna staðfesta það sem stjórn hjúkrunarráðs hefur áður bent á í umsögn sinni um málið, þ.e. að rök skorti fyrir því að flytja bráðamóttökuna við Hringbraut í Fossvog en hafa áfram aðra bráðastarfsemi og legudeildir við Hringbraut.  

Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að haldið sé áfram á þeirri leið að klínískt áhættumat þeirra sem best þekkja til á hverjum tíma sé lagt til grundvallar við ákvarðanir um hagræðingu. Stjórn hjúkrunarráðs lýsir jafnframt yfir áhyggjum sínum af því að auknar hagræðingarkröfur heilbrigðis- og fjármálaráðuneytis á rekstur spítalans, muni draga úr þjónustu og öryggi sjúklinga.  

Stjórn hjúkrunarráðs skorar á framkvæmdastjórn spítalans að endurskoða þessa ákvörðun. Í því sambandi má benda á að nú liggja fyrir nýjar tillögur um að hægt verði að ráðast í byggingu á nýjum spítala við Hringbraut innan fárra ára. Tækifærin liggja í því að sameina alla starfsemi spítalans á einn stað og því er mikilvægt að flýta byggingu nýs spítala eins og mögulegt er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert