Samtök iðnaðarins hafa ákveðið að hætta birtingu blaðaauglýsingar með fyrirsögninni: „Velur þú fagmann eða fúskara?“ Auglýsingin birtist í Fréttablaðinu í dag og vakti þegar hörð viðbrögð.
Í yfirlýsingu frá SI kemur fram að tilgangur auglýsingarinnar hafi verið að vekja fólk til umhugsunar um að fagmennska eigi við í öllum greinum. „Myndmál auglýsingarinnar er mjög sterkt og hefur vakið hörð viðbrögð. Samtök iðnaðarins viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök með birtingu auglýsingarinnar í ljósi þessa. Samtökin biðja alla þá sem telja sér misboðið afsökunar, sérstaklega heilbrigðisstéttir og konur,“ segir í yfirlýsingunni sem Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI, og Rakel Pálsdóttir, forstöðumaður almannatengsla SI, skrifa undir.