Dagar Lífar taldir

Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf.
Dagbjört Briem Gísladóttir og Líf. mbl.is/Albert Kemp

Dagar hreindýrskálfsins Lífar, sem heimilisfólkið að Sléttu utan við Reyðarfjörð bjargaði í fyrravor, eru taldir. Líf drapst í gær og var banameinið hvítvöðvasýki. Húsfreyjan að Sléttu segir missinn mikinn. Trúlegt sé að röð mannlegra mistaka hafi leitt til dauða Lífar.

Líf komst í fréttirnar fyrir skömmu þegar Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við að heimilisfólkið að Sléttu hefði tekið hana upp á sína arma. Slökkviliðsmenn í Fjarðabyggð, sem voru í sjúkraflutningum í fyrravor, sáu hreinkú sem var að burði kominn. Þegar þeir komu til baka var kýrin farin en nýborinn hreindýrskálfur lá í vegkantinum. Kálfurinn var fluttur heim að Sléttu þar sem hlúð var að honum og hann dafnaði vel.

Umhverfisstofnun hafði bent ábúendum á ákvæði laga um villt dýr og hvatt þá til að sækja um leyfi til að halda hreindýrskálfinn. Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra lét málið til sín taka og fór austur að Sléttu til að heimsækja Líf. 

„Ég legg það á mig sem þarf til þess að tryggja að það finnist sú lausn í málinu að Líf fái líf,“ segir Kolbrún eftir heimsóknina austur.

Til stóð að sækja um leyfi til að Líf fengi að vera að Sléttu. Til þess kom þó ekki þar sem hún lauk sinni jarðvist í gær.

„Ég var að fá úrskurð úr krufningu, hún dó úr hvítvöðvasýki. Það er ferli sem fer af stað í vöðvum dýrsins þegar það er beitt harðræði eða skelfist. Þetta leiðir yfirleitt alltaf til dauða,“ sagði Dagbjört Briem Gísladóttir, bóndi að Sléttu í samtali við mbl.is.

Dagbjört segist ekki vilja kenna neinum um en dýralæknir frá Akureyri hafi eindregið ráðlagt að klaufar Lífar yrðu klipptar því hún sliti þeim ekki líkt og hreindýr sem lifa villt úti í náttúrunni.

„Og við fórum í það að ráði dýralæknisins. Hún varð mjög hrædd en það virtist í lagi með hana. Svo sá ég að dofnaði yfir henni og dró af henni. Við reyndum hvað við gátum en hún dó í gær. Ég er bóndi og búin að horfa á eftir hrossum og öðrum skepnum en þetta er ekki líkt því.  Þetta er mikill missir fyrir mig og mér líður skelfilega. Það er sárt að horfa á eftir Líf ekki síst núna þegar grös eru tekin að grænka og sumarið handan við hornið. Ég var farin að hlakka til sumarsins með Líf,“ sagði Dagbjört.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert