Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa viðræður stjórnarflokkanna, er varða málamiðlun um ESB, snúist um með hvaða hætti verður hægt að leggja málið í dóm þjóðarinnar, og þá á hvaða stigi.
Meðal þess sem komið hefur til umræðu í þingflokki VG er hvort tvær þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að fara fram. Annars vegar um hvort sækja skuli um aðild og svo um hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB verði það niðurstaða viðræðna.
Skiptar skoðanir hafa verið um þessi mál innan þingflokkanna, eins og gefur að skilja, enda stefnur flokkanna gjörólíkar.
Fleiri hafa þó verið á móti þessari leið innan VG en með henni, en hjá Samfylkingunni er stefnan sú að tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla sé óþörf.
Þar lítur forysta flokksins til þess að umsókn um aðild að ESB geti verið mikilvægasta bráðaaðgerð við vanda íslensks efnahagslífs.