Eigendur jöklabréfa fjármagni álver

Framkvæmdir við álverið í Helguvík.
Framkvæmdir við álverið í Helguvík. mbl.is/RAX

Bandaríska álfélagið Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, er að ræða við eigendur svonefndra jöklabréfa um að koma að fjármögnun fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík með því að breyta jöklabréfum í skuldabréf í dollurum.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Íslenskra verðbréfa.  Þar kemur fram, að unnið sé að því af yfirvöldum að minnka þrýsting á krónunni og í því sambandi sé rætt um að skipta út innlendum krónueignum erlendra fjárfesta fyrir skuldabréf innlendra fyrirtækja sem hafa erlendar tekjur.

Einnig sé Century Aluminum að ræða við eigendur jöklabréfa um að koma að fjármögnun álversins í Helguvík með því að breyta jöklabréfunum í skuldabréf í dollurum á Century Aluminum og fjármagna þannig innlendan kostnað álversins.

Segir í fréttabréfinu, að Hvorttveggja væri mjög jákvætt fyrir Ísland því það veiti fjármögnun inn í landið og dragi jafnframt úr hættu á snörpu útflæði gjaldeyris með tilheyrandi gengisveikingu krónunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert