„Fjölskyldan er í sjokki,“ segir Hrönn Óskarsdóttir, systir fimmtán ára stúlku sem varð fyrir árás hóps kynsystra sinna í Heiðmörk síðdegis í gær. Stúlkan er með verulega áverka í andliti þó að hún sé ekki brotin.
Að sögn Hrannar hafði stúlka sem að systir hennar átti í deilum við beðið hana að hitta sig í þeim tilgangi að sættast. Systir hennar hafi stuttu síðar verið sótt af tveimur stúlkum á bíl. Þaðan hafi verið keyrt í Suðurver, þar sem fimm til viðbótar bættust í hópinn, áður en haldið var í Heiðmörkina. Er þangað var komið gengu tvær þeirra í skrokk á henni og beindu höggunum sérstaklega í andlit og höfuð hennar.
Drengur sem hafði elt stúlkurnar á öðrum bíl stöðvaði loks árásina. „Þegar hann sá að þetta var gengið allt of langt þá stoppaði hann þetta sem betur.“ Annars hefði geta farið illa. „Svona mörg högg framan á andlitið geta haft hrikalegar afleiðingar,“ segir Hrönn og kveður 16-17 ára gamlar stúlkur vita það vel. Systir hennar var send í sneiðmyndatöku er upp á Landsspítala var komið og fannst starfsfólki þar ótrúlegt að hún væri ekki brotin.Hrönn segir systur sína hafa verið verulega hrædda, enda hótuðu stúlkurnar henni lífláti ef hún segði til þeirra. „Hún vildi helst fara heim og gera ekkert í þessu. En það er ekki hægt að gera ekkert í svona málum, það verður að vekja athygli á þessu.“