Guðsmildi að ekkert barn slasaðist alvarlega

Ölver í Borgarfirði.
Ölver í Borgarfirði.

Stjórn Ölvers, sumarbúða KFUM og KFUK, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem harmað er atvik sem upp kom í ferðalagi í Grundaskóla á Akranesi í gærkvöldi þegar svalir hrundu undan hópi barna. Segir í yfirlýsingunni, að guðsmildi sé, að ekkert barnanna hafi slasat alvarlega. Lögreglan kannar nú tildrög slyssins.

Í yfirlýsingunni segir, að stjórn sumarbúðanna hafi ávallt kappkostað að fylgja öllum öryggiskröfum og lagt áherslu á að framfylgja þeim athugasemdum, sem fram hafi komið í góðu samráði við eftirlitsyfirvöld. Hafi stjórnin þegar óskað eftir úttekt Vinnueftirlitsins á aðbúnaði sumarbúðanna til að ganga úr skugga um að öll börn njóti fyllsta öryggis í sumarbúðum KFUM og KFUK. 

Um 20 grunnskólabörn voru á svölunum á húsi í Ölveri undan Hafnarfjalli þegar þær hrundu í gærkvöldi. Krakkarnir, sem voru þar í hópi um fimmtíu barna úr 7. bekk grunnskóla á Akranesi, féllu um tvo og hálfan metra niður er svalirnar gáfu sig.

Einhver barnanna urðu fyrir meiðslum, en að sögn lögreglunnar í Borgarnesi var þó ekki um nein alvarleg meiðsl að ræða. Farið var með börnin á sjúkrahúsið á Akranesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert