„Að sjálfsögðu," svarar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félagsmálaráðherra, innt eftir því hvort hún sé fylgjandi olíuvinnslu
á Drekasvæðinu.
Ásta Ragnheiður var staðgengill Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á ráðstefnu Norðurskautsráðsins um áhrif hlýnunar á norðurslóðum í Tromsø í dag, þar sem fulltrúar Íslands lögðu áherslu á að á sama tíma og nauðsynlegt væri að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum væri ljóst að breytingarnar á lífríkinu vegna hlýnunar væru varanlegar.
„Með breytingunum skapast nýtt ástand í nánasta nágrenni Íslands í norðri. Við verðum að aðlaga okkur að því og nýta þau tækifæri sem felast í breyttu ástandi. Við bentum á að innan fárra ára kynnu að opnast ný siglingaleið til Kyrrahafsins um Norður-Íshafið. Þá geti verið hagkvæmt að hafa umskipunarhöfn á Íslandi fyrir flutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku yfir til Asíu."
Hugmyndir um þjónustumiðstöð
Svo kann að fara að um líkt leyti og fyrirhuguð olíuvinnsla hefst norðaustur af Íslandi muni fyrirætlanir um jarðefna- og námavinnslu á Austur-Grænlandi hafa þokast nær veruleika. Ásta Ragnheiður segir stjórnvöld líta svo á að í þessari þróun felist tækifæri fyrir Íslendinga.
„Við getum þjónustað þessa námur á Grænlendi eða olíuvinnslu þar frá Íslandi sem gæti að sjálfsögðu verið mjög mikilvægt atvinnulífið miðað við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi í dag. Það hafa nú þegar fundist verðmætar námur á Austur-Grænlandi sem byrjað verður að vinna næstu árum. Og það búið að ákveða að fara í frekari rannsóknir á auðlindanýtingu á þessum svæðum. Hvað úr því verður á tíminn eftir að leiða í ljós.
Á fundinum lagði ég áherslu á að það yrði haft náið og aukið samstarf við alla nágranna okkar, sérstaklega ríkin sem næst okkur eru, svo sem Grænland."
Hún segir sama máli gilda um auknar siglingar yfir Norður-Íshafið. „Við höfum möguleika á að opna þjónustumiðstöð eða umskipunarhöfn fyrir siglingar um Norður-Íshafið. Mikilvægt atriði sem að þessu tengist eru öryggismálin. Ísland er kjörinn vettvangur fyrir alþjóðlega eftirlitsmiðstöð sem hefði það hlutverk að fylgjast með aukinni umferð um okkar hafsvæði, umferð sem meðal annars tengdist auðlindanýtingu. Hlutverk miðstöðvarinnar yrði að bregðast við slysum, segir Ásta Ragnheiður.
Þarf ekki að brenna olíunni
Aðspurð um hvort olíuvinnsla á Drekasvæðinu og sú losun gróðurhúsalofttegunda sem henni muni fylgja gangi ekki í berhögg við loftslagsmarkmið Norðurskautsráðsins segir Ásta Ragnheiður að ströngustu umhverfisreglum verði fylgt.
Það skiptir máli að ef farið verður í olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu að þá verði fylgt ströngustu umhverfisstöðlum og að Íslendingar verði í því efni til fyrirmyndar," segir Ásta Ragnheiður, sem bendir á að olíu sé ekki einungis brennt heldur sé hún notuð í margvíslegum iðnaði.
Á fundinum kom fram að Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, og Al Gore, handhafi friðarverðlauna Nóbels, hygðust setja upp vinnuhóp til að taka saman upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum í samvinnu við Norðurskautsráðið sem lagðar fyrir loftslagsráðstefnuna í
Kaupmannahöfn í desember.
Ásta Ragnheiður segir Íslendinga munu leggja sitt af mörkum til þeirrar vinnu í gegnum vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem íslenskir vísindamenn taka þátt í.