Lögregla höfuðborgarsvæðisins of fáliðuð

Hópurinn var ráðinn þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst.
Hópurinn var ráðinn þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. mbl.is/Júlíus

Tuttugu lögreglumenn sem ráðnir voru til lögreglu höfuðborgarsvæðisins á liðnu hausti halda störfum sínum til 16. maí. Það ræðst af fjárveitingum til embættisins hvort hægt verður að ráða þá til áframhaldandi starfa, að sögn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns.

Geir Jón sagði að lögreglumennirnir tuttugu hafi verið ráðnir í janúar s.l.  Ríkisstjórnin hafi samþykkt ráðningu hópsins þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Síðan hafi þau verið endurráðin og þá til 16. maí n.k. 

„Við vitum ekki enn hvort það kemur fjármagn til að ráða þau áfram,“ sagði Geir Jón. „Við viljum halda þessu fólki en bíðum eftir að vita hvort við fáum fjármagn. Um daginn var okkur gert að senda þeim bréf þess efnis að verði þau ráðin áfram, sett eða skipuð, þá sé ekki hægt að gera það á grundvelli auglýsingarinnar sem þau voru ráðin eftir á sínum tíma.“

Geir Jón sagði að þetta bréf hafi valdið nokkrum misskilningi en efni þess snúist um muninn á því að ráða fólk til tímabundinna starfa og að skipa það eða setja í embætti. Lögreglu höfuðborgarsvæðisins hafi borið að tilkynna hópnum þetta. Búið er að funda með hópnum til að útskýra málið.

Geir Jón sagði að fáist fjárveiting sé ekkert því til fyrirstöðu að ráða fólkið áfram tímabundið. Eigi hins vegar að setja fólk eða skipa í embætti þá verði að auglýsa stöðurnar sérstaklega. Það er ríkislögreglustjóri sem skipar eða setur í stöður lögreglumanna.

„Það sem er alvarlegast er að við höfum ekki enn fengið svör við því hvort við fáum fjármuni til að ráða þetta fólk áfram,“ sagði Geir Jón. „Það er nöturlegt því þetta eru fullmenntaðir lögreglumenn sem hafa staðið sig mjög vel. Við þurfum á þeim að halda.“

Geir Jón sagði lögreglu höfuðborgarsvæðisins fá í raun of lítið fé miðað við þá lögreglumenn sem eru skipaðir til starfa hjá embættinu.  Þessir séu þar fyrir utan. Ef eigi að ráða þetta fólk til frambúðar þurfi að auka fjárveitingar.

Eins og staðan er nú er ekki gert ráð fyrir neinum sumarafleysingum hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Geir Jón sagði að eins og staðan sé nú þýði það einfaldlega að færri verði við störf í sumar en ella og sé þó embættið fáliðað fyrir.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert