Áframhald hefur verið á viðræðum milli Samfylkingar og VG um stjórnarsamstarf flokkanna. Forystumenn flokkanna hafa haldið áfram að funda í dag og hefur verið rætt heildstætt um helstu stefnumál, svo sem Evrópumál, atvinnumál og mögulegar breytingar á stjórnkerfinu.
Engin niðurstaða hefur náðst en í mesta deilumálinu milli flokkanna, þ.e. málefnum Evrópusambandsins (ESB). Samfylkingin vill að sótt verði um aðild að ESB en VG hefur ekki viljað það hingað til.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur meðal annars verið deilt um með hvaða hætti hægt verður að leggja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þá á hvaða stigi.
Þingflokksfundi VG, sem hófst klukkan 18:00, lauk rúmlega hálf átta í kvöld en þar voru forystumenn flokksins meðal annars að upplýsa þingflokkinn um á hvaða stigi viðræðurnar væru.