Vill neyðarlög um íbúðalán

Talsmaður neyt­enda legg­ur til að Alþingi setji nú þegar lög sem kveði á um að all­ir samn­ing­ar um lán til neyt­enda sem veitt höfðu verið fyr­ir banka­hrun, 7. októ­ber 2008, hvort sem er í ís­lensk­um krón­um eða er­lendri mynt, einni eða fleiri, gegn veði í íbúðar­hús­næði, verði tekn­ir eign­ar­námi ef kröfu­rétt­ind­in eru ekki þegar í eigu rík­is­ins.

Kröfu­höf­um verði bætt eign­ar­námið í sam­ræmi við lög um fram­kvæmd eign­ar­náms. Talsmaður neyt­enda legg­ur þó til að umráð krafn­anna flytj­ist þegar yfir til rík­is­ins án trygg­ing­ar og að heim­ilt verði að greiða eign­ar­náms­bæt­ur á lengri tíma í stað staðgreiðslu.

Þá legg­ur talsmaður neyt­enda til að all­ar íbúðaveðskuld­ir, sem stofnað var til fyr­ir 7. októ­ber 2008, verði færðar niður eft­ir mæli­kv­arða sér­staks fimm manna gerðardóms sem Hæstirétt­ur skipi. Tveir full­trú­ar í gerðardómn­um verði full­trú­ar skuld­ara og sam­eig­in­lega til­nefnd­ir af Neyt­enda­sam­tök­un­um, Hags­muna­sam­tök­um heim­il­anna og Hús­eig­enda­fé­lag­inu en í þess­um sam­tök­um eru sam­tals tæp­lega 22 þúsund fé­lags­menn.

Þá verði tveir full­trú­ar í gerðardómn­um full­trú­ar kröfu­hafa, sam­eig­in­lega til­nefnd­ir af Lands­sam­tök­um líf­eyr­is­sjóða, fé­lags­málaráðherra vegna Íbúðalána­sjóðs og full­trú­um er­lendra kröfu­hafa þeirra fjár­mála­fyr­ir­tækja sem neyðarlög­um var beitt á í kjöl­far banka­hruns­ins.

Loks er lagt til að Hæstirétt­ur skipi formann gerðardóms­ins.

Gísli Tryggva­son, talsmaður neyt­enda, seg­ir að kostnaður liggi ekki fyr­ir eða öllu held­ur geti hann ekki legið fyr­ir, þar sem til­lag­an lýt­ur að til­tek­inni málsmeðferð en ekki til­tek­inni niður­stöðu. Þá sé ekki held­ur lögð til nein hlut­falls­leg niður­færsla íbúðaveðlána.

Bind­andi leiðrétt­ing í eitt skipti 

Talsmaður neyt­enda hef­ur kynnt til­lög­ur sín­ar fyr­ir rík­is­stjórn, auk formanna stjórn­mála­flokka sem sæti eiga á Alþingi.

Með til­lög­un­um seg­ist talsmaður neyt­enda leit­ast við að bregðast við brot­um gegn rétt­ind­um og hags­mun­um neyt­enda og finna skjóta og skil­virka lausn á vanda heim­il­anna. Mark­miðið er að draga úr miklu mis­vægi eigna og skulda neyt­enda í kjöl­far efna­hags­hruns­ins. Enn­frem­ur að stuðla að því að hags­mun­ir og rétt­indi neyt­enda séu höfð að leiðarljósi þegar fund­in verður lausn á skulda­vanda þeirra og sam­ráð haft við full­trúa þeirra. Til­lög­urn­ar miða enn­frem­ur að því að leggja grunn að end­ur­reisn fast­eigna­markaðar, létta með var­an­leg­um og al­menn­um hætti greiðslu­byrði neyt­enda og standa vörð um sjálf­seign­ar­stefnu gagn­vart íbúðar­hús­næði neyt­enda og af­stýra því sem nefnt hef­ur verið þjóðnýt­ing íbúðar­hús­næðis.

Talsmaður neyt­enda seg­ir að með þessu verði viður­kennt að afar litl­ar lík­ur voru á efna­hags­hruni og verðbólgukúfi sem neyt­end­ur hafa orðið fyr­ir und­an­far­in miss­eri og jafn­framt deili lán­veit­end­ur og neyt­end­ur tjón­inu.

Aðrir val­kost­ir

Talsmaður neyt­enda seg­ir aðra val­kosti í stöðunni. Alþingi gæti samþykkt aft­ur­virk lög um hóp­mál­sókn sem kæmu þá í stað eign­ar­námsþátt­ar til­lagna hans.

Enn­frem­ur mætti hugsa sér þríhliða samn­inga rík­is, kröfu­hafa og neyt­enda um niður­færslu íbúðaveðlána­samn­inga með sam­bæri­legri niður­stöðu og stefnt sé að með eign­ar­námi og gerðardómi.

Upp­boð skuld á alþjóðleg­um vett­vangi er enn einn kost­ur.

Frétt á síðu tals­manns neyt­enda

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert