Sala á samheitalyfjum hefur aukist undanfarna mánuði enda eru þau ódýrari en frumlyfin og fólk veltir nú útgjöldunum betur fyrir sér en áður. Hjördís Arnardóttir, talsmaður Actavis, sem er umsvifamikið í framleiðslu samheitalyfja, segir að fyrirtækið merki stigvaxandi notkun samheitalyfja í öllum lyfjaflokkum.
Aðalsteinn Steinþórsson, framkvæmdastjóri Lyfjavers, tekur í sama streng. Færri séu nú tilbúnir til að greiða fyrir dýrari frumlyf og velji samheitalyfin í staðinn. „Færri krónur skipta meira máli í dag,“ segir hann.
Aðalsteinn segir að lyf hafi hækkað í verði og nokkrar ástæður séu fyrir því, m.a. hafi hámarksálagning á ódýrari lyf verið hækkuð með reglugerðarbreytingu um áramótin sem hafi leitt til verðhækkana. Í öðru lagi hafi mörg lausasölulyf og lyfseðilsskyld lyf sem Sjúkratryggingar greiða ekki með hækkað samhliða lækkandi gengi krónunnar. Þau lyf sem bundin eru við gengisþróun muni enn hækka, líklega um um 11-12% um næstu mánaðamót, eingöngu vegna falls krónunnar. Þar að auki hafi hlutur sjúklinga í lyfjum sem Sjúkratryggingar greiða með hækkað um 10% frá og með 1. mars.