Ekki brot á jafnrétti

Fyrsti úrskurður kærunefndar jafnréttismála samkvæmt nýjum jafnréttislögum hefur verið birtur. Úrskurðurinn varðar uppsögn og var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri um brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að ræða.

Birtur hefur verið nýjasti úrskurður kærunefndar jafnréttismála, en um er að ræða fyrsta úrskurð nefndarinnar samkvæmt nýjum jafnréttislögum, nr. 10/2008. Þetta kemur fram í frétt á vef Jafnréttisstofu.

Úrskurðurinn varðar uppsögn og var það niðurstaða nefndarinnar að ekki væri um brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að ræða. Kærandi var kona sem taldi að sér hefði verið sagt upp störfum sem öryggisvörður hjá Securitas sökum kynferðis.

Af hálfu Securitas hf. er því hafnað að uppsögnin hafi farið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Uppsögnin hafi upphaflega eingöngu verið sögð rakin til skipulagsbreytinga í fyrirtækinu, en fyrir kærunefnd jafnréttismála vísaði Securitas hf. jafnframt til þess að ágreiningur kæranda við yfirmann og samstarfsörðugleikar á vinnustað hefðu verið ástæða uppsagnar kæranda.

Nokkuð af gögnum var lagt fram af hálfu málsaðila varðandi meinta samstarfsörðugleika og aðfinnslur í garð kæranda. Talið var að þegar svo háttaði til þætti ekki sýnt að uppsögn kæranda hefði verið rakin til kynferðis hennar sérstaklega, heldur verði hún rakin til framangreindra samstarfsörðugleika en ekki var talin ástæða til að greina ástæður þeirra sérstaklega, eins og hér stóð á.

Þetta er fyrsti úrskurður kærunefndar jafnréttismála á þessu ári. Á árinu 2008 sendi kærunefndin frá sér álit í níu málum. Í einu tilfelli taldi nefndin að jafnréttislög hefðu verið brotin. Úrskurð kærunefndarinnar má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert