Fæddi barnið í framsætinu

Klukkan tíu í gærkvöld  fæddist lítil stúlka í framsætinu á Ford Explorer á bílaplani við Slökkvistöðina í Árbæ. Þrír vaskir sjúkraflutningamenn tóku á móti.

Móðirin, Hanna Kristín Björnsdóttir var á leið á Landspítalann úr Árbæ þegar hún missti legvatnið en augnabliki síðar skaust kollurinn á barninu út.  Föðurnum, Hrafni Varmdal hætti að lítast á blikuna og sneri við og keyrði að slökkvistöðinni í Árbæ eftir að hafa hringt í Neyðarlínuna.

Hann segist hafa sagt við konuna sína að nú væri þessi draumur orðinn nógu langur. Hann væri til í að vakna.  Þegar á slökkvistöðina var komið var fæðingin komin langt á veg. Ekki gafst neitt ráðrúm til að flytja móðurina í sjúkrabíl. Barnið fæddist í framsæti Ford Explorer jeppabifreiðar foreldranna augnabliki eftir að bíllinn renndi í hlað og þrír menn úr slökkviliðinu tóku á móti.

Áhugasamur kaupandi Ford Explorer bifreiðar sem skoðaði bifreiðina um sex leytið í gær með kaup í huga  kann að skoða sig um hönd þegar hann fær að vita að bílnum hafi verið breytt í fæðingardeild nokkrum klukkustundum síðar. Faðirinn eyddi drjúgum hluta af nóttinni í að skrúbba bílinn en ekki er víst að það dugi til. Hann var heldur ekki viss um að hann tímdi að láta bílinn af hendi eftir atburði gærkvöldsins.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert