Fásinna að útstrikanir hafi verið skipulagðar í Árborg

Ólafur Hafsteinn Jónsson
Ólafur Hafsteinn Jónsson mbl.is

Ólafur Hafsteinn Jónsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Árborg, segir í yfirlýsingu að það sé algjör fásinna að sjálfstæðismenn í Árborg hafi staðið fyrir skipulögðum útstrikunum á Árna Johnsen, þingmanni flokksins í Suðurkjördæmi.

Yfirlýsingin er svar Ólafs við þeim ummælum Árna Johnsens í Fréttum í Vestmannaeyjum í gær að það væri skelfilegt þegar samherjar settu af stað heilt batterí til að strika sig út.

„Útstrikanir eru eðlilegur hluti kosninga út frá forsendum einstaklinga en ég veit að það var sett af stað batterí á Árborgarsvæðinu mér til höfuðs, bæði af ungliðum og eldri flokksmönnum," sagði Árni í Fréttum í gær.

Í yfirlýsingu Ólafs segir að hann sem formaður fulltrúaráðs Árborgar og formaður kosningastjórnar í Árborg hafi aldrei tekið þátt í neinum atlögum að Árna Johnsen í formi útstrikana. Ólafur segist heldur ekki hafa átt neinar slíkar viðræður við sitt fólk eða símtöl um slíka hluti. Hann segist aldrei hafa orðið vitni að umræðum eða símtölum í þá veru.

Ólafur segir það sorglegt að allt það góða fólk sem hafi lagt fram mikla og óeigingjarna vinnu, við erfiðar aðstæður í kosningabaráttunni, skuli sitja undir slíkum ásökunum. Það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir sig sem formann fulltrúaráðs Árborgar hvort hann eigi að leggja heiður sinn að veði til þess að vinna fyrir slíka menn.

Aðspurður segir Ólafur Hafsteinn Jónsson í samtali við Suðurlandið.is að hann hafi eins og aðrir heyrt af sögusögnum um útstrikanir í aðdraganda kosninganna. Þar hafi menn rætt sín á milli um frambjóðendur í fleiri kjördæmum. Skipulagðar útstrikanir hafi hins vegar aldrei verið ræddar á neinum fundum. Það sé mjög alvarlegt að ásaka menn um slíkt. Ólafur segir að málið verði væntanlega rætt á fundi sem búið var að boða til hjá stjórn fulltrúaráðs Árborgar og Sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi í kvöld.

Árni Johnsen
Árni Johnsen mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka