Æxli í munni getur reynst kostnaðarsamt mein því auk óþægindanna sem af því hljótast er það ekki endilega bóta- eða endurgreiðsluskylt. Að þessu komst Erla Vinsý Daðadóttir 1. árs nemi í lögfræði við Háskóla Íslands er hún greindist með blöðruæxli í gómi.
„Ég fór til tannlæknis fyrir um ári. Hann taldi fyrst að þetta væri æxli en svo þegar hann komst að því að ég var með dauða tönn áleit hann um vökvamyndun að ræða út frá tönninni,“ segir Erla. Síðar kom svo í ljós að dauða tannarinnar mátti rekja til æxlisins sem sent var í ræktun og reyndist góðkynja.
Æxlið var bólgið og líktist vatnsbólu og hefur valdið Erlu nokkrum óþægindum og stundum verk. Meinið virðist hins vegar ekki vera bótaskylt. „Foreldrar mínir eru með mjög margvíslegar tryggingar en engin þeirra náði yfir þetta.“ Tryggingastofnun endurgreiðir ekki heldur kostnaðinn og í synjunarbréfi stofnunarinnar segir að Sjúkratryggingar Íslands taki aðeins þátt í kostnaði við tannlækningar sé „tannvandi sannanlega afleiðing fæðingargalla, sjúkdóms eða slyss“. Slíkt telja þeir ekki hafa verið sannað í tilfelli Erlu og því sé umsókninni synjað.
Kostnaðurinn við að fjarlægja blöðruæxlið lenti því allur á Erlu sem þykir það óneitanlega súrt í broti. En kostnaður við aðgerðina, sem fór fram hjá kjálkaskurðlækni, nam um 90.000 krónum auk lyfjakostnaðar.