Hraðbankaþjófar handteknir

Mennirnir þrír sem lögreglan lýsti eftir hafa nú verið handteknir.
Mennirnir þrír sem lögreglan lýsti eftir hafa nú verið handteknir.

Þrír menn hafa verið handteknir og einn gefið sig fram við lögreglu vegna innbrota í verslanir og tilrauna til innbrota í hraðbanka á undanförnum dögum. Mennirnir sem um ræðir eru allir af erlendu bergi brotnir og var lýst eftir þeim í fyrradag og myndir birtar af þeim í fjölmiðlum.

Að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru mennirnir þrír handteknir í Leifsstöð þegar einn þeirra var á leið úr landi. Sá er einnig viðriðinn innbrot í hraðbanka í Hveragerði fyrir nokkru síðan, og mun lögreglan í Árnessýslu í dag leggja fram kröfu um farbann yfir manninum. Mennirnir hafa verið yfirheyrðir og af þeim teknar skýrslur, en ekki verður gerð krafa um gæsluvarðhald.

Ómar Smári segir ekki útilokað að fleiri kunni að verða handteknir í tengslum við rannsókn málsins og varar fólk við því að taka boðum um skartgripi og nýlegar snyrtivörur til sölu utan verslana, þar sem þar gæti verið um að ræða þýfi úr innbrotum þessara manna. Hann bendir fólki á að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu ef það fær slík tilboð.

Hann segir ennfremur ástæðu til að þakka fjölmiðlum fyrir umfjöllun og myndbirtingar í málinu, en þær hafi leitt til þess að fjöldi ábendinga barst, sem leiddu til handtöku mannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert