Skólameistari Flensborgarskóla í Hafnarfirði, Einar Birgir Steinþórsson, hefur sent frá sér tilkynningu vegna líkamsárásarmálsins í Heiðmörk. Staðfestir hann þar að einhverjar stúlknanna sem eru viðriðnar málið séu nemendur í Flensborg.
Málið er litið mjög alvarlegum augum af stjórnendum skólans og verður fylgst með því að sögn Einars Birgis. Hins vegar ítrekar hann að atburðurinn hafi ekki átt sér stað á vettvangi skólans og endurspegli ekki skólastarfið eða framgöngu annarra nemenda þar almennt.
„Stjórnendur Flensborgarskólans vænta þess að málið fái eðlilega afgreiðslu til þess bærra aðila og mun skólinn bregðast við í samræmi við tillögur þeirra sem og reglum skólans eftir því sem valdheimildir leyfa,“ segir Einar Birgir í tilkynningunni.