Fréttaskýring: Margir hafa áhuga á strandveiðunum

Nokkrir eigendur skemmtibáta hafa nú þegar skráð báta sína til …
Nokkrir eigendur skemmtibáta hafa nú þegar skráð báta sína til fiskveiða og hyggjast stunda strandveiðar, ef þeir verða leyfðar. mbl.is/Þorkell

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra kynnti hugmyndir um strandveiðar um miðjan þennan mánuð. Eins og við mátti búast hreyfði þetta við mörgum manninum í sjávarútvegi, enda ekki á hverjum degi sem opnuð er smuga til frjálsra veiða við Íslandsstrendur. Sjávarútvegsráðuneytið hefur ítrekað að ráðherrann hafi varpað þessu fram til kynningar og engin formleg ákvörðun hafi verið tekin.

Að sögn Ólafs J. Briem hjá Siglingastofnun hefur talsverður fjöldi manna haft samband við stofnunina til að kanna stöðuna hjá þeim bátum sem þeir hafa umráð yfir og búið sé að skrá nokkra báta nú þegar. Til þess að skrá skip þarf viðkomandi að sanna eignarhald að bátnum og fylla út eyðublað með ósk um skráningu. Áður en bátar eru skráðir til atvinnuveiða þarf viðurkennd skoðunarstofa að skoða bátinn og síðan þarf að kaupa haffærisskírteini og greiða ýmis gjöld.

Samkvæmt upplýsingum Sigríðar Jakobsdóttur hjá Siglingastofnun kostar haffærisskírteini 2.300 krónur, og gildir það í eitt ár. Þá þarf að greiða skatt sem kallast skipagjald og er 6.250 krónur fyrir báta, sem eru 6-8 metrar að lengd. Fyrir báta sem eru 8-15 metrar að lengd er skipagjaldið 11.200 krónur. Þá þarf að greiða svokallað vitagjald, sem er 3.500 krónur hjá minni bátum á ári.

Guðgeir Svavarsson skipaskoðunarmaður hjá Skipaskoðun ehf. segir að mikið sé um fyrirspurnir frá mönnum, sem hafi hug á fá leyfi til strandveiða. Hann segir að nú þegar hafi nokkrir látið skoða báta sína, til dæmis skemmtibáta sem þeir hyggist breyta í fiskibáta að nýju. Guðgeir segir að skoðunargjald fyrir báta undir 15 tonnum sé á bilinu 36 þúsund til 45 þúsund krónur, allt eftir stærð bátsins. Hann segir að talsverð vinna fylgi því að skoða bátana auk ferðalaga um landsbyggðina.

Þegar bátarnir hafa verið skráðir og skoðaðir og öll leyfi greidd, þarf viðkomandi að kaupa veiðileyfi hjá Fiskistofu. Öll veiðileyfi kosta 17.500 krónur, óháð stærð fiskiskips. Veiðileyfin eru ótímabundin, sem þýðir að ef bátunum er haldið til veiða í atvinnuskyni á hverju ári er um eingreiðslu að ræða. Hjá Fiskistofu fengust þær upplýsingar, að ekki hefði orðið merkjanleg aukning á sölu veiðileyfa enn sem komið er, „enda útgáfa þeirra aftast í ferlinu,“ eins og það var orðað.

Þegar smábátar selja afla rennur hálft prósent af aflaverðmætinu til Landssambands smábátaeigenda, og útgerðarmennirnir verða sjálfkrafa aðilar að sambandinu. Örn Pálsson framkvæmdastjóri segir að talsvert hafi verið hringt til sambandsins með fyrirspurnir. Greinilegt sé að tilkynning sjávarútvegsráðherra hafi hreyft við mönnum og margir hafi hug á því reyna við strandveiðarnar, ef þær verði að veruleika. Örn ítrekar að engin ákvörðun hafi verið tekin enn. Það sé heilmikið mál að starta svona útgerð og talsverður kostnaður. Ekki megi gleyma því, að enginn megi stunda þessar veiðar nema hann hafi leyfi til að stjórna báti allt að 30 tonnum, „pungaprófið“ sem kallað er.

Frjálsar veiðar

Til strandveiða á að ráðstafa þeim heimildum sem nú mynda byggðakvóta, þ.e.a.s. 6.127 tonn af óslægðum botnfiski auk 2.500 tonna viðbótar sem ráðherra ákveður. Veiðarnar verða frjálsar, en almennar skorður eiga að takmarka og dreifa sókn. Þær munu ekki skapa varanlegan rétt til veiða og enginn réttur verður framseljanlegur. Í dag eru skráðir um 720 haffærir bátar undir 15 brúttótonnum, en þeir einir mega stunda veiðarnar. Um 650 þessara báta hafa stundað fiskveiðar í atvinnuskyni undanfarin ár. Varanlegar aflaheimildir eru bundnar við 350 þeirra en til viðbótar eru um 140 bátar með varanlegar aflaheimildir en eru ekki með gilt haffæri sem oftast er þá innlagt. Til viðbótar er einhver fjöldi báta sem varanlegar aflaheimildir eru ekki bundnar við og ekki hafa gilt haffæri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert