Sérstök ályktun var samþykkt samhljóða á prestastefnu í dag um málefni Selfosssafnaðar. Er biskup Íslands í ályktuninni hvattur til þess að nýta þær leiðir sem hann hefur til lausnar í málefnum Selfosssafnaðar.
Sr. Gunnar Björnsson, sóknarprestur Selfosssóknar var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn unglisstúlkum en sýknaður bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Presturinn var leystur frá störfum meðan á rekstri málsins stóð en Biskupsstofa hefur lýst því yfir, að hann taki á ný við prestakallinu 1. júní.
Sóknarnefnd Selfosskirkju hefur sent biskup Íslands trúnaðarbréf þar sem þess var óskað að presturinn snúi ekki aftur til starfa í Selfosskirkju. Þá hefur fagráð um kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar lýst þeirri skoðun, að kirkjan hafi sett sér strangari reglur en dómstólar séu tilbúnir að dæma eftir. Því eigi presturinn ekki að taka við Selfossprestakalli að nýju 1. júní.
Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar hefur einnig lýst því yfir, að með hliðsjón af starfsreglum sambandsins og því sem fram hafi komið í dómsgögnum í máli, að Gunnar eigi ekki að taka til starfa að nýju við Selfosskirkju.