Tvö aðalhjól sprungu á Fokker-flugvél Flugfélags Íslands við lendingu á Reykjavíkurflugvelli fyrir skömmu. Vélin var að koma frá Grænlandi og rásaði hún að sögn á brautinni þegar atvikið varð. Flugvellinum var lokað í 20 mínútur vegna atviksins, en 27 farþegar voru um borð, ásamt áhöfninni.
Rannsóknarnefnd flugslysa er komin á vettvang og eru starfsmenn hennar rétt aðeins byrjaðir að skoða skemmdirnar. Bragi Baldursson, flugvélaverkfræðingur og nefndarmaður, sagði í samtali við mbl.is að dekkin sem sprungu væru sömu megin, þ.e. bæði undir hægri væng vélarinnar. Hann sagðist aðspurður ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu hvort að flugatvik sem þetta teldist alvarlegt eða ekki. Fyrst þyrfti hann að kanna skemmdir og tildrög slyssins betur.
Vélin staðnæmdist á brautinni og var ekki hreyfð fyrr en búið var að selflytja alla farþegana frá borði og huga að skemmdunum.
Vélin var að koma frá Kuluusuuk á Grænlandi og lenti klukkan 18.51 á Reykjavíkurflugvelli. Lögreglu og slökkviliði var gert viðvart og fór a.m.k. lögregla á vettvang.