Svo virðist sem efnahagshrunið hafi dregið nokkuð úr trú fólks á virkni markaðarins í samfélaginu. Þetta kemur fram í könnun sem Þjóðmálastofnuna Háskóla Íslands hefur gert á viðhorfum fólks til velferðarmála í kjölfar fjármálahrunsins gerð.
Tæp 71% svarenda eru frekar eða mjög ósammála þeirri fullyrðingu að besta leiðin til að vinna á efnahagsvandanum sé að láta markaðinn rétta sig af án afskipa ríkisins.
Að sama skapi eru tæp 90% svarenda frekar eða mjög sammála því að ríkisvaldið hafi mikilvægu hlutverki að gegna við endurreisn íslensks efnahagslífs.
Í fréttabréfi Þjóðmálastofnunar kemur fram að ekki séu til tiltæk sambærileg gögn frá því fyrir hrunið og því sé ekki hægt að fullyrða neitt ákveðið um umfang breytinga á viðhorfum fólks til þessara mála. „Í ljósi þess að áhrif almennrar
frjálshyggju hafa verið mikil á Íslandi á undanförnum áratug virðist líklegt að viðhorf til sjálfstæðis markaðarins hafi áður verið talsvert jákvæðara en nú
er,“ segir m.a. í nýjasta fréttabréfi Þjóðmálastofnunar.
„Í ljósi þess að áhrif almennrar frjálshyggju hafa verið mikil á Íslandi á undanförnum áratug virðist líklegt að viðhorf til sjálfstæðis markaðarins hafi áður verið talsvert jákvæðara en nú er. Raunar eru niðurstöðurnar svo afgerandi að ætla má að trúverðugleiki markaðshyggju hafi beðið hnekki og að fólk horfi nú í auknu mæli til ríkisins sem æskilegs geranda í að tryggja efnahagslegan stöðugleika,“ segir í fréttabréfinu.
Tekið fram að ætla megi að með tímanum muni tiltrú á markaðinn aukast á nýjan leik, enda sé markaðurinn mikilvægur í skipan atvinnulífs og viðskipta.
Meðal annarra niðurstaðna könnunarinnar er að nærri 89% svarenda eru mjög eða frekar sammála því að mikilvægt væri að tryggja aðkomu almennra borgara að ákvörðunum um framtíð Íslands. Einungis 4% eru því andvíg.
Tæp 73% svarenda telja stjórnmálastefnu undanfarinna ára vera meginástæðu fyrirliggjandi efnahagsvanda, en tæp 14% eru því ósammála
88% svarenda telja mikilvægt að efla íslenska velferðarkerfið, en 3,6% eru því andvíg.
Tæp 47% svarenda eru frekar eða mjög sammála því að leggja eigi meiri áherslu á frelsi einstaklingsins á hinu nýja Íslandi meðan 88% svarenda eru frekar eða mjög sammála því að leggja eigi meiri áherslu á jöfnuð í framtíðinni.
Tæp 83% svarenda eru mjög eða frekar ósammála því að Íslendingar eigi að taka sér Bandaríkin til fyrirmyndar í framtíðinni og einungis rúm 4% eru því sammála. Rúm 75% eru frekar eða mjög sammála því að Ísland framtíðarinnar ætti að líkjast meira skandinavísku þjóðfélögunum og einungis rúm 7% eru því ósammála.
Könnunin er hluti af fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni og inniheldur mikinn fjölda
spurninga um viðhorf fólks til einstakra þátta velferðar- og þjóðmála. Sambærileg könnun hefur verið lögð fyrir almenning í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Þýskalandi og Hollandi. Að auki voru lagðar fyrir sérstakar spurningar á Íslandi um viðhorf fólks til hrunsins og áherslur varðandi endurreisn
samfélagsins.
Um er að ræða póstkönnun sem var framkvæmd á tímabilinu frá 1. desember til 1. apríl. Úrtakið var 1500 manns og svörun rúmlega 50% af virku úrtaki. Greining á samsetningu svarendahópsins bendir til að svarendur endurspegli þjóðina 18 ára og eldri með viðunandi hætti.