Ummæli um Goldfinger dæmd ómerk

Feministar utan við Goldfinger í Kópavogi
Feministar utan við Goldfinger í Kópavogi Sverrir Vilhelmsson

Jón Trausti Reynisson, fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Ísafoldar, og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður, voru óskipt dæmd til að greiða Ásgeiri Þór Davíðssyni, eiganda nektardansstaðarins Goldfinger, 800.000 krónur með dráttarvöxtum í Hæstarétti í dag.

Ásgeir Þór krafðist þess fyrir dómi að dæmd yrðu dauð og ómerk 22 tilgreind ummæli í umfjöllun Ísafoldar í júní 2007, um Goldfinger. Hæstiréttur féllst á að fimm ummæli skyldu dæmd dauð og ómerk á þeim forsendum, að í þeim fælust  aðdróttanir um refsiverða háttsemi.  Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt sjö ummæli dauð og ómerk.

Þau ummæli sem Hæstiréttur ógilti voru eftirfarandi.

  • „Flest bendir til þess að mansal sé stundað í Kópavogi.“
  • „Og þeir sem láta sig málið varða vita að aðstæður þeirra hafa ekkert með list að gera, heldur mansal. Þetta eru stúlkurnar á Goldfinger.“
  • „Stúlkan segist geta fullyrt að aðstæður austur-evrópsku stúlknanna á Goldfinger flokkist undir mansal.“
  • „Og þær voru mjög hræddar við eigandann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: „Hér kemur Geiri og hirðin.“ Er þetta ekki mansal?“
  • „Mansalið í Kópavogi“.

Hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson dæmdu í málinu, auk Viðars Más Matthíassonar, setts hæstaréttardómara. Þeir milduðu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem dæmdi blaðamennina til að greiða eina milljón króna í bætur.

Auk 800.000 krónanna voru Jón Trausti og Ingibjörg Dögg dæmd til að greiða Ásgeiri Þór 350.000 krónur í málskostnað.

Hæstiréttur segir, að í greininni í Ísafold hafi falist aðdróttanir um mansal, sem sé refsiverð háttsemi.  Fékk Ásgeir dæmdar 500 þúsund krónur í miskabætur auk 300 þúsund króna til að standa straum af kostnað við að birta dóminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert