Ummæli um Goldfinger dæmd ómerk

Feministar utan við Goldfinger í Kópavogi
Feministar utan við Goldfinger í Kópavogi Sverrir Vilhelmsson

Jón Trausti Reyn­is­son, fyrr­ver­andi rit­stjóri tíma­rits­ins Ísa­fold­ar, og Ingi­björg Dögg Kjart­ans­dótt­ir, blaðamaður, voru óskipt dæmd til að greiða Ásgeiri Þór Davíðssyni, eig­anda nekt­ar­dansstaðar­ins Gold­fin­ger, 800.000 krón­ur með drátt­ar­vöxt­um í Hæsta­rétti í dag.

Ásgeir Þór krafðist þess fyr­ir dómi að dæmd yrðu dauð og ómerk 22 til­greind um­mæli í um­fjöll­un Ísa­fold­ar í júní 2007, um Gold­fin­ger. Hæstirétt­ur féllst á að fimm um­mæli skyldu dæmd dauð og ómerk á þeim for­send­um, að í þeim fæl­ust  aðdrótt­an­ir um refsi­verða hátt­semi.  Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hafði dæmt sjö um­mæli dauð og ómerk.

Þau um­mæli sem Hæstirétt­ur ógilti voru eft­ir­far­andi.

  • „Flest bend­ir til þess að man­sal sé stundað í Kópa­vogi.“
  • „Og þeir sem láta sig málið varða vita að aðstæður þeirra hafa ekk­ert með list að gera, held­ur man­sal. Þetta eru stúlk­urn­ar á Gold­fin­ger.“
  • „Stúlk­an seg­ist geta full­yrt að aðstæður aust­ur-evr­ópsku stúlkn­anna á Gold­fin­ger flokk­ist und­ir man­sal.“
  • „Og þær voru mjög hrædd­ar við eig­and­ann og hans fólk. Enda var alltaf sagt: „Hér kem­ur Geiri og hirðin.“ Er þetta ekki man­sal?“
  • „Man­salið í Kópa­vogi“.

Hæsta­rétt­ar­dóm­ar­arn­ir Markús Sig­ur­björns­son og Ólaf­ur Börk­ur Þor­valds­son dæmdu í mál­inu, auk Viðars Más Matth­ías­son­ar, setts hæsta­rétt­ar­dóm­ara. Þeir milduðu dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur, sem dæmdi blaðamenn­ina til að greiða eina millj­ón króna í bæt­ur.

Auk 800.000 krón­anna voru Jón Trausti og Ingi­björg Dögg dæmd til að greiða Ásgeiri Þór 350.000 krón­ur í máls­kostnað.

Hæstirétt­ur seg­ir, að í grein­inni í Ísa­fold hafi fal­ist aðdrótt­an­ir um man­sal, sem sé refsi­verð hátt­semi.  Fékk Ásgeir dæmd­ar 500 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur auk 300 þúsund króna til að standa straum af kostnað við að birta dóm­inn.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert