Viss um að lausn fyndist á sjávarútvegsmálum

Joe Borg.
Joe Borg.

Joe Borg, sem fer með sjáv­ar­út­vegs­mál í fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, sagði á blaðamanna­fundi í Brus­sel í síðustu viku, að ef Ísland sækti um aðild að sam­band­inu sé hann þess full­viss, að lausn finn­ist á sjáv­ar­út­vegs­mál­um sem muni tryggja að fisk­veiðum á Íslandi verði stjórnað með sama hætti og gert hafi verið til þessa.

Þetta kom fram á blaðamanna­fundi, þar sem Borg kynnti skýrslu, svo­nefnda græn­bók, um sjáv­ar­út­vegs­stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins. Þar kom m.a. fram að níu af hverj­um 10 fiski­stofn­um í lög­sögu banda­lags­ins væru of­veidd­ir. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á veiðikvót­um að ís­lenskri fyr­ir­mynd og vísaði Borg til þess á blaðamanna­fund­in­um.

Borg sagði á blaðamanna­fund­in­um, að flytja yrði ákvörðun um stjórn fískveiða á mis­mun­andi svæðum í lög­sögu banda­lags­ins nær svæðunum og íbú­um þar. Er­lend­ur blaðamaður spurði Borg hvort hann teldi að sjáv­ar­út­vegs­mál yrðu minni fyr­ir­staða en áður var talið í hugs­an­leg­um viðræðum Íslands og ESB í ljósi þess, að borið væri lof á fisk­veiðistjórn­un Íslands.

Borg svaraði, að það væri rétt að ESB væri að taka upp ýms­ar ráðstaf­an­ir sem nor­ræn lönd á borð við Ísland og Nor­eg hefðu tekið upp, m.a. til að vinna gegn brott­kasti.

„Ef Ísland ákveður að sækja um aðild, þarf að semja um (sjáv­ar­út­vegs­mál) sem hafa til þessa verið viðkvæm. Ég get ekki sagt fyr­ir um hver niðurstaða slíkra viðræðna yrði en ég er viss um að ef Ísland ákveður að sækja um aðild... mun landið finna í fram­kvæmda­stjórn­inni samn­ingsaðila sem er reiðubú­inn til að ræða með mjög já­kvæðum hætti hvort hægt sé að finna lausn sem trygg­ir að framtíð ís­lenskra sjó­manna verði svipuð og þeir hafa haft það til þessa, en það yrði að vera inn­an marka sam­eig­in­legu sjáv­ar­út­vegs­stefn­unn­ar."

Borg  sagði einnig, að Ísland myndi án efa geta lagt sitt til mál­anna við end­ur­skoðun fisk­veiðistefn­unn­ar, sem nú standi fyr­ir hönd­um. 

Blaðamanna­fund­ur Borgs

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert