Efling-stéttarfélag hefur samþykkt að ganga til viðræðna við önnur stéttarfélög innan svokallaðs Flóabandalags um sameiningu félaganna. Tillaga þessa efnis var samþykkt á fjölmennum aðalfundi Eflingar, en fyrir fundinum lá erindi frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur um viðræður um sameiningu.
Stærstu félögin innan Starfsgreinasambandsins (SGS), Efling í Reykjavík, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hafa um árabil haft með sér samstarf, en félögin hafa undanfarin ár staðið sameiginlega að gerð kjarasamninga. Samstarfið hefur verið kallað Flóabandalagið. Verkalýðsfélög á landsbyggðinni hafa síðustu ár gert sérstakan kjarasamning við vinnuveitendur. Félögin innan Starfsgreinasambandsins hafa því ekki komið fram í viðræðum við vinnuveitendur sem ein heild þó samstarfið hafi þó alltaf verið náið.
Eftir að Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur samþykkti á aðalfundi tillögu um að kanna kosti þess að segja sig úr Starfsgreinasambandinu og sækja um beina aðild að ASÍ lá fyrir að verulegar líkur væru á að Starfsgreinasambandið myndi liðast í sundur. Ef félagið í Keflavík og Efling sameinast og hugsanlega fleiri félög á Suðvesturlandi verður til stærsta stéttarfélag landsins. Ennfremur kemur upp sú staða að eitt félag verður langstærsta félagið innan SGS.
Í tillögunni sem aðalfundur Eflingar samþykkti segir að markmiðið með sameiningu félaga á Suðvesturlandi sé að "ná fram hagræðingu og öflugri félagslegri stöðu stéttarfélaganna á Flóasvæðinu."