Fráleitt að fækka störfum núna

Gylfi Arnbjörnsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir, forseti og varaforseti ASÍ, fóru …
Gylfi Arnbjörnsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir, forseti og varaforseti ASÍ, fóru fyrir göngunni frá Hlemmi niður á Ingólfstorg. mbl.is/GSH

Þorveig Þormóðsdóttir, formaður félags starfsmanna stjórnarráðsins, sagði í ávarpi sínu á Austurvelli í dag að bregðast þyrfti ört við slæmri stöðu heimila og fyrirtækja ef ekki ætti að horfa til auðnar í íslensku atvinnulífi innan skamms.

„Á tímum samdráttar er fráleitt að grípa til ráðstafana sem fækka störfum,“ sagði hún. Niðurskurður væri ekkert annað en ávísun á enn meira atvinnuleysi. Hún lagði þunga áherslu á að fólki í opinberum láglaunastörfum, svo sem kvennastéttum á borð við fólk í ummönnunarstörfum, mætti ekki refsa í skjóli kreppunnar með launalækkunum.

„Það er ólöglegt að hreyfa við samningsbundnum kjörum starfsmanna. Allar hugmyndir um breytingar á kjörum, á skilyrðislaust að ræða í fullu samráði við launafólk og fulltrúa þess. Um þetta munum við standa vörð,“ sagði Þorveig.

Hún sagði að á undanförnum árum hefði almenningur orðið vitni að óheftri græðgi ákveðinna aðila í samfélaginu. „Á þeim tíma jókst launabil, launamisrétti kynja hefur ekki verið meira í langan tíma. Nú þegar taka þarf til hendinni er mikilvægt að þeir sem sátu eftir á góðæristímunum verði ekki látnir moka flórinn eftir fjárglæframennina. BSRB hefur mótmælt niðurskurði á velferðarkerfi landsmanna til að mæta skuldabagganum sem nýfrjálshyggjan hefur skilið eftir sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert