Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, flutti ávarp á baráttudegi verkafólks á Austurvelli í dag. Hann ræddi um málefni námsmanna. Hann sagði að í málefnum námsmanna væri yfirleitt spurt hvað væri hægt að gera til að koma í veg fyrir landflótta. Nær væri að spyrja hvernig ætti að fá það fólk sem farið er til útlanda til náms til að koma aftur, með sína framandi sérfræðiþekkingu.
Þá sagði hann að staða iðnnema væri í sjálfheldu á Íslandi í dag. ,,Forsenda þess að þeir klári nám sitt er að þeir starfi sem nemur einu ári á vinnumarkaðnum. En markaðurinn er frosinn og nemar þeir fyrstu til að fjúka," sagði Stefán Rafn. Íslendingar myndu því þurfa að horfast í augu við verulegan skort á faglærðum iðnaðarmönnum innan tíðar, ef ekkert yrði gert í málefnum þessa hóps.
Hann sagði jafnframt að Samband íslenskra framhaldsskólanema vildi jöfn tækifæri fyrir námsmenn og því þyrfti að opna betur fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sagði hann að menntmálaráðuneytið ætlaðist til þess að nema væru ekki á vinnumarkaði en hefðu þó ekki allir aðgang að lánasjóðnum. ,,Ætlast þau til þess að menn borgi námsgögnin með loftinu einu? Við erum ekki öll fædd með silfurskeið í munninum," sagði hann og uppskar lófatak.