„Kreppa nærð af græðgi og siðleysi"

Safnast verður við Hlemm kl. 13, en útifundur hefst á …
Safnast verður við Hlemm kl. 13, en útifundur hefst á Austurvelli kl. 14:10. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Kreppan hér á landi varð alvarleg vegna þess að hún var allt í senn, bankakreppa, gjaldeyriskreppa og hugarfarskreppa, nærð af græðgi og siðleysi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, BHM, KÍ og Sambands framhaldsskólanema.

"Öflugt velferðarkerfi gerir okkur kleift að standa af okkur áföllin og aðeins með samstöðu og samheldni mun þjóðinni takast að vinna bug á erfiðleikunum enda undirstöður íslensks efnahagslífs traustar og á þeim má byggja til framtíðar. Forsenda samstöðunnar er jöfnuður og félagslegt réttlæti. Kjarabilið hefur farið ört breikkandi, þar með talið kynbundið launamisrétti. Það ber vott um ófyrirleitni og algert dómgreindarleysi þegar kallað er eftir samstöðu lágtekjufólks án þess að heita jafnframt stuðningi við róttækar jöfnunaraðgerðir. Slíkt hefur holan hljóm og er til marks um hræsni. Því er alfarið hafnað að almennt launafólk verði eitt látið bera allan herkostnaðinn af óráðsíu og bruðli undanfarinna ára."


Í ávarpinu er bent á þá staðreynd að hátt í tuttugu þúsund Íslendingar eru atvinnulausir í dag og heilu atvinnugreinarnar eru í lamasessi. Fjöldi kraftmikilla fyrirtækja sé gjaldþrota eða á leiðinni í greiðsluþrot. "Margar fjölskyldur standa nú frammi fyrir því að eiga minna en ekki neitt í íbúðarhúsnæði sínu. Lífeyrissjóðir okkar, Íbúðalánasjóður og fjármálakerfið allt hefur orðið fyrir þungu höggi. Á þessu ári og því næsta munu margir lífeyrissjóðir þurfa að skerða réttindi félagsmanna sem áratugum saman hafa safnað lífeyri til efri áranna. Sjóðir sveitarfélaganna og ríkisins standa frammi fyrir því að skerða ýmsa þjónustu, hækka skatta eða safna skuldum."


Í ávarpinu segir að í nágrannalönd okkar búi mörg við fjármálakreppu en ekki gjaldeyriskreppu. "Stjórnmálamenn hafa allt of lengi lokað augunum fyrir því að íslenska krónan er ekki lengur gjaldgeng í myntsamfélagi þjóðanna sem sýnir sig m.a. í því að íslenskar fjármálastofnanir tóku stöðu gegn krónunni og stuðluðu þar með að hruni fjármálakerfisins."

Um allt land fagnar launafólk 1. maí með kröfugöngu og fundahöldum.  Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi kl. 13.00 þar sem Sigtryggur Baldursson og Parabólurnar leika slagverkstónlist. Gangan leggur af stað kl. 13.30 og er gengið niður Laugaveg, Bankastræti, Austurstræti og inn á Austurvöll þar sem útifundurinn verður haldinn. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngunni. Útifundur á Austurvelli hefst kl. 14:10 og lýkur kl. 15.

Sjá ávarp fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, BHM, KÍ og Sambands íslenskra framhaldsskólanema

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert