Fasteignaverð er mjög lágt á Vestfjörðum og á sumum stöðum á Norðurlandi í samanburði við aðra landshluta. Þetta kemur fram í tölum um fasteignaverð á landsbyggðinni sem Fasteignamat ríkisins birti, en tölurnar eru byggðar á fasteignaviðskiptum sem áttu sér stað á árinu 2008.
Samkvæmt tölunum var meðalverð á fermetra 172.111 krónur í Keflavík á síðasta ári, 165.992 krónur í Grindavík, 165.408 krónur á Akranesi og 186.038 í Borgarnesi. Í Bolungarvík, þar sem seldust 15 eignir á síðasta ári, var meðalverðið 55.440 krónur á fermetra og 95.942 krónur á Ísafirði. Á Blönduósi var meðalverðið 90.215 krónur, 56.227 krónur á Ólafsfirði og 62.137 krónur á Siglufirði.
Meðalverð á Akureyri var 180.669 krónur á fermetra, 175.676 á Egilsstöðum og 193.301 króna á Selfossi.