Mál hælisleitanda lá óhreyft í heilt ár

Hitchem Mansrí
Hitchem Mansrí mbl.is/Kristinn

Mál Alsírbúans Hitchems Mansrís lá óhreyft hjá Útlendingastofnun í heilt ár áður en það var tekið til meðferðar. Stofnunin synjaði honum um hæli í síðasta mánuði og er málið nú til kærumeðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu.

Mansrí er nú í hungurverkfalli þar sem hann dvelst á flóttamannahælinu Fit í Reykjanesbæ en níu dagar eru síðan hann neytti síðast matar. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt honum 19. maí sl. en hún hljóðaði upp á synjun á hæli og brottvísun með endurkomubanni í fimm ár. Að sögn Hauks Guðmundssonar, forstjóra Útlendingastofnunar, varð niðurstaðan þessi þar sem saga mannsins hefði verið metin ótrúverðug þar sem misræmis gætti í frásögn hans um aðstæður sínar.

Fyrir úrskurðinn hafði Mansrí beðið hátt í tvö ár eftir úrlausn sinna mála. „Þetta er hluti af fortíðinni þegar hér var langur hali af þessum málum,“ segir Haukur. „Þessi maður sótti um í ágúst 2007 og það var ekki byrjað að vinna í málinu fyrr en í ágúst 2008. Ég vil þó taka skýrt fram að svona er þetta ekki lengur. Við byrjum að vinna í málum nokkurn veginn um leið og þau koma.“

Eftir að málið var loks tekið til meðferðar tók að sögn Hauks nokkurn tíma að úrskurða hvort franskt vegabréf Mansrís væri falsað og komst stofnunin að raun um að svo væri í nóvember sl. „Eftir það dróst málið af því að hann var stöðugt að leggja fram ný gögn, án þess að beðið væri um þau. Í janúar fékk hann svo lokafrest og hann klárar ekki málið fyrr en 6. mars. Við erum svo tilbúin með úrskurðinn rúmri viku seinna.“ Þá hafi Mansrí nýtt sér 15 daga kærufrest áður en málið fór til kærumeðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu þar sem það er enn.

Í gær kom fram að Mansrí hefði verið boðið að skrifa undir staðlaða yfirlýsingu þess efnis að hann óskaði ekki eftir læknisaðstoð missti hann meðvitund í hungurverkfallinu. Haukur segir alls ekki lagt að mönnum að undirrita þessa yfirlýsingu. „En ef menn ætla að svelta sig í hel og vilja ekki aðstoð er eins gott að það sé alveg á hreinu.“ En væri ekki réttara að hafa þann valkost í yfirlýsingunni, að þiggja læknisaðstoð? „Ef maðurinn vill að gripið verði inn í þá undirritar hann þetta ekki,“ segir Haukur og telur að þannig eigi vilji hans að vera skýr.

Í hnotskurn
» Hitchem Mansrí hefur beðið í tvö ár eftir úrlaus sinna mála en það dróst að taka þau fyrir í heilt ár.
» Í ljós kom í nóvember sl., að franskt vegabréf hans var falsað.
» Fimm einstaklingar, sem beðið hafa um hæli, hafa farið í hungurverkfall í vetur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert