Matjurtafræ og útsæði rokselst

Matjurtir í Grasagarði Reykjavíkur.
Matjurtir í Grasagarði Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Útsæði og matjurtafræ rjúka út og eru dæmi um að vissar tegundir séu uppseldar í bili. Eftirspurn eftir matjurtagörðum á vegum borgarinnar hefur aldrei verið meiri en búið er að úthluta öllum görðum í Skammadal, þrátt fyrir að þeir séu tvöfalt fleiri en í fyrra.

Að sögn Steinunnar Reynisdóttur hjá Garðheimum hefur orðið slík sprenging í sölu matjurtafræs og útsæðis að á stundum hefur horft til vandræða með að anna eftirspurn. „Okkur hefur þó tekist að redda því. T.d. vorum við að verða mjög tæp með gulrótarfræ um daginn. Við höfum ekki orðið uppiskroppa með útsæði en maður veit þó ekki hvort birgðirnar duga.“

Ásdís Ragnarsdóttir hjá Blómavali hefur svipaða sögu að segja. „Við erum búin að selja meira af matjurtafræi og útsæði núna en við seldum allt árið í fyrra. Allar birgðir eru búnar og núna er beðið eftir meiru af gulrótum og gulrófum en við eigum nú flest annað að einhverju leyti og nóg af útsæði.“

Garðyrkjustjórinn í Reykjavík, Þórólfur Jónsson, segir búið að úthluta öllum görðum í Skammadal en þeir eru 200 talsins sem er tvöföldun frá í fyrra, og er fólk á biðlista. Útlit sé fyrir að hægt verði að koma fyrir 50-80 görðum til viðbótar fyrir almenning í skólagörðum borgarinnar, en þar eru 600 garðar ætlaðir skólabörnum. Innritun í þá hefst á morgun og er ljóst að áhuginn er mikill. Þá var undirritaður í gær samningur við Garðyrkjufélag Íslands um að það tæki að sér útleigu á 50-80 matjurtagörðum við Stekkjarbakka í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka