„Þetta er þáttur í greiningarvinnu sem Ríkisskattstjóri hefur með höndum. Það er kominn vísir að greiningardeild hjá embættinu,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. Hann staðfestir í samtali við mbl.is að embættið hafi til rannsóknar á þriðja hundrað fyrirtækja og félaga í skattaskjólum á borð við bresku Jómfrúreyjar. Hann játar því að félögin sem eru til rannsóknar séu skráð á fleiri stöðum en þar, en hins vegar sé það ljóst að vegir ansi margra hafi legið til eyjarinnar Tortólu.
„Í þessu felst að afla upplýsinga í gegnum aðila í Lúxemborg um það hvaða félög hafa farið þar í gegn sem hægt er að tengja Íslandi. Það er ekki víst að þetta sé tæmandi talning, en við höfum verið með mann í því að skoða þessi mál,“ segir Skúli Eggert.
Hann segir að vinnan sé ekki rannsókn á neinum tilteknum meintum skattalagabrotum, heldur sé þetta greining almenns eðlis, hluti af því að koma saman heildstæðri mynd af raunverulegu eignarhaldi íslenskra félaga erlendis.
Í framhaldi af öflun þessarar vitneskju geti það verið þáttur í skattaeftirliti að kanna hvort aðilar í viðskiptalífinu hafi tilgreint á framtali sínu eign í þessum félögum, eða hver sé raunverulega á bak við þau. „Þótt þessi félög beri mörg íslensk auðkenni, svo sem nafn eða íslenskt hlutafé þá er samt sem áður oft yfir þeim erlend stjórn, erlendir lögmenn eða félög. Þar tekur við að kanna hver sé raunverulegur eigandi en ekki formlegur,“ segir hann.
Hann segir starfsmenn ríkisskattstjóra engar meiningar hafa um að lögbrot komi upp á yfirborðið í kjölfar þessarar vinnu.