Aukinn kraftur verður settur í það af hálfu borgarinnar að finna húsnæði undir súpueldhús sem Teresusystur hyggjast reka í miðborginni. Borgin sjálf á þó ekkert húsnæði undir starfsemina en hefur lofað nunnunum aðstoð við að finna það sem myndi henta.
Nunnurnar hafa beðið í sex mánuði eftir svörum frá borginni varðandi húsnæðið en að sögn Jórunnar Frímannsdóttur, formanns velferðarráðs, er málið ekki einfalt í framkvæmd. Á sínum tíma hafi það tekið langan tíma að finna súpueldhúsi Samhjálpar nýjan samastað árið 2008. „Þetta er spurning um nágrennið – eigendurnir þurfa að samþykkja að hafa þessa starfsemi í húsinu og það hefur ekki reynst auðvelt, t.d. þegar þeir leigja fleiri í sama húsi,“ segir Jórunn. „En við tókum strax mjög vel í málið og ætlum nú að setja aukinn kraft í að hjálpa systrunum við að finna húsnæði. Ég hef þá trú að þetta eigi að vera auðveldara núna enda allt aðrir tímar en fyrir ári.“
Málið er á borði framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur. „Borgin á sjálf ekkert húsnæði til að láta þær hafa,“ segir Jórunn. „Hins vegar höfum við yfirsýnina yfir hvar möguleikarnir eru og á þann hátt getum við aðstoðað og reynt að auka skilning eigenda á að þetta sé jákvætt framtak.“