Veður var gott á Akureyri í dag þegar fjölmennasta kröfuganga í áratugi var gengin í tilefni baráttudags verkalýðsins. Gengið var frá Alþýðuhúsinu í Sjallann við undirleik hljóðfæraleikara. Hátíðardagskrá fór fram í Sjallanum að göngu lokinni og þar var einnig kaffihlaðborð.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, flutti ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna. Hann hvatti fólk til að standa vörð um réttindi sín. „Öfl frjálshyggjunnar sækja hart að þeim, þrátt fyrir að hafa beðið algjört skipbrot. Við megum ekki gefa eftir heldur verðum við að sækja fram til sigurs. Markmið okkar í dag eru: Frjáls heimili og atvinna fyrir alla!“ sagði Björn.
„Við krefjumst þess að þeir aðilar sem hafa komið íslenskum heimilum í þennan mikla vanda með sinni óráðsíu og röngu ákvarðanatöku eigi og verði að axla sína ábyrgð,“ sagði Björn ennfremur.
Elsa Sigmundsdóttir, ráðgjafi Starfsendurhæfingarsjóðs í Eyjafirði, hélt ávarp þar sem hún fjallaði um tilurð sjóðsins og tilgang og Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, flutti aðalræðu dagsins.
Ræðu Björns í heild sinni má sjá á heimasíðu Einingar-Iðju, http://ein.is