Hannes Sigmarsson, yfirlæknir við Heilsugæslu Fjarðabyggðar, hefur enn ekki aftur snúið til vinnu þrátt fyrir að embætti ríkissaksóknara hafi ákveðið að vísa kæru Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) frá. Endurkoma hans hefur frestast þar sem Ríkisendurskoðun tók nýverið ákvörðun um að hefja rannsókn á málefnum læknisins auk þess sem embætti landlæknis hefur ekki lokið rannsókn á faglegum þáttum verka hans.
Hannes sem var grunaður um fjárdrátt í starfi nýtur mikils stuðnings og nýverið voru stofnuð Hollvinasamtök heilsugæslunnar í Fjarðabyggð. Um 90 manns eru í samtökunum sem m.a. vinna að því að standa vörð um heilsugæsluna, starfsemi hennar og starfsfólk.
Á stofnfundinum síðastliðinn sunnudag komu málefni Hannesar, sem á reyndar sæti í stjórn samtakanna, til umræðu. Í fundargerð segir svo: „Fundurinn var spennuþrunginn og það brann mjög á fólki að Hannes Sigmarsson læknir byrjaði störf sem fyrst. Einar Rafn Haraldsson [forstjóri HSA] vildi ekki svara ítrekuðum spurningum þess efnis hvenær eða hvort Hannes kæmi aftur til starfa. [...] Greinilegt var af viðbrögðum Einars Rafns, að hann vildi ekki Hannes aftur til starfa.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.