Enginn liggur frammi á gangi á líknardeild, að sögn Vilhelmínu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra lyflækningasviðs Landspítala. Vilhelmína var innt eftir viðbrögðum við grein Hjördísar Bjartmars Arnardóttur, „Viltu deyja frammi á gangi?“, sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar lýsir Hjördís síðustu dögum móður sinnar sem lést á spítala fyrir tveimur árum, og varði fjórðungi af banalegu sinni á ganginum. Ekki kemur fram á hvaða spítala eða deild móðirin lá.
Vilhelmína kveðst ekki þekkja tilfellið en fannst mjög átakanlegt að lesa grein Hjördísar.
„Sem betur fer hefur ástandið lagast hvað þetta varðar, gangainnlögnum hefur fækkað mjög mikið, sérstaklega síðasta rúma árið. Ég held bæði og vona að ástandið sé betra en t.d. fyrir tveimur árum.“
„Ég get ekki fullyrt að þetta komi aldrei fyrir, en nú eru miklu minni líkur á því að fólk liggi fárveikt á göngunum, og ég held það sé orðið nánast óþekkt.“