Söngvaseiður verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu að viku liðinni undir leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar, en tuttugu ár eru liðin frá síðustu uppfærslu hans hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Það var Sveitasinfónían eftir Ragnar Arnalds sem gekk allt leikárið 1988 til 1989 og var síðasta sýning LR á fjölunum í Iðnó.
Áður hafði Þórhallur sett upp tvær sýningar fyrir LR, Ástin sigrar eftir Ólaf Hauk Símonarson og Tröllaleiki. En sýningar Þórhalls eru orðnar fjörutíu í Þjóðleikhúsinu og kennir þar ýmissa grasa, enda hefur Þórhallur staðið vaktina í fjörutíu ár og er sá starfsmaður hússins sem hefur lengstan samfelldan starfsaldur. Aðeins Benedikt Árnason hefur leikstýrt þar fleiri sýningum eða 50 talsins.
Nú vill svo til að þrjár sýningar úr smiðju Þórhalls eru sýndar í leikhúsunum tveimur á sama tíma, en Hart í bak hefur verið sýnt í allan vetur í Þjóðleikhúsinu og barnasýningin Skoppa og Skrýtla í „söng-leik“.
„Þetta gerðist stundum í gamla daga,“ segir Þórhallur. „Þegar ég leikstýrði Kæru Jelenu, Gauragangi, Hafinu og Emil í Kattholti, þá gengu sýningarnar gjarnan fleiri en eitt leikár.“
Rætt er við Þórhall í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.