Fái embætti lögreglu höfuðborgarsvæðisins ekki fjárveitingu upp á rúmar 50 milljónir króna til að halda tuttugu lögreglumönnum, sem ráðnir voru tímabundið, innan sinna vébanda verða eftir um 290 lögreglumenn. Fyrir ári voru 347 lögreglumenn í starfi hjá embættinu.
„Við sjáum ekki alveg fyrir endann á því hvernig þetta kemur til með að ganga fari þeir frá okkur,“ segir lögreglustjóri. „Ég held að það sé ekki hægt að fara svona neðarlega með okkur án þess að það skerði þjónustuna. Það segir sig sjálft.“
Embættið fékk fimmtíu milljóna króna aukafjárveitingu í lok árs til að ráða tuttugu lögreglumenn tímabundið. Fjörutíu sóttu um stöðurnar. Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir nóg af lögreglumönnum sem sitja heima atvinnulausir á bótum frá ríkinu en væru til í að hefja störf á morgun.
Stefán segir Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra hafa sýnt málum embættisins mikinn skilning og fylgt þeim vel eftir. Ákvörðun um fjárveitingu liggur hins vegar hjá ríkisstjórninni allri. Hann bindur miklar vonir við að ríkisstjórnin hafi fullan skilning á stöðunni enda ekki skynsamlegt að ganga of nærri lögreglunni, sérstaklega á tímum efnahagslegra erfiðleika.