Óvenju rólegt hjá lögreglunni í Reykjavík

Óvenju rólegt var hjá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðnu í nótt og aðeins 75 verkefni skráð í dagbók lögreglu. Tveir ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og einn tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá var bifreið stöðvuð í umferðareftirliti um kl. 03 í nótt, grunur vaknaði hjá lögreglumönnum um að ökumaður hefði eitthvað óhreint í pokahorninu þar sem áfengisflöskur voru sjáanlegar á víð og dreif í farþegarými bifreiðarinnar.

Ökumaður var handtekinn grunaður um ólöglega áfengissölu (sprúttsölu). Hald var lagt á fimm vodkafleyga, auk Gins og Tequila flaskna, þá voru einnig haldlagðir sex kassar af áfengum bjór auk um 100 þús. kr. í reiðufé, ætlaður söluágóði áfengisins. Ökumaður viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa selt áfengi og að haldlagt áfengi væri til sölu.

Við húsleit heima hjá ökumanni var hald lagt á 8 vodkafleyga og þrjá kassa af bjór til viðbótar. Ökumaður er fráls ferða sinna að yfirheyrslu lokinni.

Þá var lögregla kölluð til aðstoðar við leigubílstjóra en farþegi svaf ölvunarsvefni í farþegarýminu og hafði bílstjóranum ekki tekist að vekja hann. Hann varð ekki sáttur við að vera vakinn óþyrmilega af værum blundi og réðst með barsmíðum að lögreglubifreiðinni og dældaði hana með góðu sparki svo á sá. Hann gistir nú fangageymslur og bíður yfirheyrslu með morgninum vegna eignarspjalla

Fátt var af fólki í miðborginni og lítil ölvun að sjá á þeim sem voru úti á næturlífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert