„Í fyrradag kallaði nágranninn til mín inn um gluggann og spurði hvort það væri ég sem hefði verið að hósta og hvort ég væri nokkuð veik. Ég var ekki viss um hverju ég ætti að svara og muldraði eitthvað um að ég væri kvefuð. Þau hjónin hafa forðast mig eins og pláguna síðan.“
Unnur María Bergsveinsdóttir býr í miðri Mexíkóborg, þar sem svínaflensan hefur verið hvað skæðust, svo það er ekki að undra þótt nágrannar hennar hafi varann á sér.
Í grein í Morgunblaðinu í dag lýsir Unnur María andrúmslofti ótta. Allar fjöldasamkonur eru bannaðar, skólar, söfn, opinberar byggingar og almenningsgarðar eru lokaðir. Kirkjur eru líka lokaðar en fólk krýpur á tröppunum og biðst fyrir.
Unnur María Bergsveinsdóttir er íslenskur sagnfræðingur sem hefur undanfarna fimm mánuði verið búsett í Mexíkóborg þar sem svínaflensan hefur verið sem skæðust. Hún er ein þeirra sem þar hafa veikst á síðustu vikum og lýsir upplifun sinni af yfirstandandi atburðum í Mexíkóborg í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Það var ekki fyrr en á fimmtudagskvöldið fyrir rúmri viku að almenningi í Mexíkóborg fóru að berast fréttir af því að eitthvað væri á seyði. Strax daginn eftir hafði heilmikill ótti gripið um sig. Ég hafði sjálf legið veik alla vikuna og íslenskur sambýlingur minn, Logi, sömuleiðis. Okkur datt þó ekki í hug að um eitthvað annað en venjulegan flensuskít gæti verið að ræða. Hvers vegna hefði okkur svo sem átt að detta annað í hug? Við bölvuðum því heilmikið að vera veik því í vikulok áttum við von á bróður Loga og konu hans í heimsókn frá Chicago.Á föstudagsmorgninum hringdi vinur minn á Írlandi í mig. Hann var áhyggjufullur eftir að hafa lesið alþjóðlegar fyrirsagnir sem töluðu um hættulega mexíkóska farsótt. Mér fannst fréttirnar hljóma ótrúlega og hugsaði með mér að vinur minn hlyti að hafa misskilið eitthvað eða þá hafa verið að lesa The Sun.
Um leið og ég fór út úr húsi tók ég hins vegar eftir því að eitthvað var í gangi. Strax þennan morgun var áberandi hversu fáir voru á ferli. Utan á söluturnum á horninu héngu forsíður dagblaða sem skýrðu frá því að samkvæmt fyrirskipan yfirvalda hefði öllum skólum í borginni, allt frá grunnskólum til háskóla, verið lokað í tíu daga vegna inflúensufaraldurs. Ég stóð í óratíma og fletti dagblöðum til að reyna að átta mig á stöðu mála en græddi engar haldbærar upplýsingar á því. Enginn fjölmiðlanna virtist vita neitt meira en það að um borgina gengi nú afar smitandi inflúensuvírus. Allar spurðu fyrirsagnirnar sömu spurningarinnar: Hvað er að gerast?
Mexíkóborg er gífurlega fjölmenn borg. Séu úthverfin tekin með eru á höfuðborgarsvæðinu um 24 milljónir manns. Borgin er þéttbýl og þar sem veðrið er jafnan gott eru götur, garðar og önnur útivistarsvæði þeir staðir þar sem fólk kemur saman. Sjálf valdi ég mér ekki fáfarnasta svæðið en íbúðin okkar er í hjarta miðbæjarins. Til austurs við okkur liggur Zona Rosa, sem er líflegt svæði fullt af veitingastöðum og börum. Nafnið er dregið af því að þetta hverfi er einnig griðastaður samkynhneigðra í annars hómófóbískri menningu. Til vesturs við okkur liggur svo viðskiptahverfið þar sem glerhjúpuð háhýsi gnæfa yfir stórar umferðargötur. Þegar ég fer út er ég vön því að lenda í fjölbreyttu mannhafi um leið og ég geng fyrir hornið á litlu götunni minni. En síðustu daga hafa göturnar verið hálftómar. Þeir sem hætta sér út úr húsi bera skurðlæknagrímur. Umferðin hefur að sama skapi snarminnkað og það er ekki lengur neitt vandamál að komast yfir Paseo de la Reforma. Þar er fuglasöngur allt í einu farinn að hljóma í stað umferðarniðs.Eina undantekningin á þessari skyndilegu ládeyðu er sú að þar til í síðustu viku heyrðum við svo til aldrei í sírenum. Frá því um helgina hefur hins vegar varla liðið klukkutími án þess að sjúkrabílar keyri götuna okkar vælandi.