„Í fyrradag kallaði nágranninn til mín inn um gluggann og spurði hvort það væri ég sem hefði verið að hósta og hvort ég væri nokkuð veik. Ég var ekki viss um hverju ég ætti að svara og muldraði eitthvað um að ég væri kvefuð. Þau hjónin hafa forðast mig eins og pláguna síðan.“
Unnur María Bergsveinsdóttir býr í miðri Mexíkóborg, þar sem svínaflensan hefur verið hvað skæðust, svo það er ekki að undra þótt nágrannar hennar hafi varann á sér.
Í grein í Morgunblaðinu í dag lýsir Unnur María andrúmslofti ótta. Allar fjöldasamkonur eru bannaðar, skólar, söfn, opinberar byggingar og almenningsgarðar eru lokaðir. Kirkjur eru líka lokaðar en fólk krýpur á tröppunum og biðst fyrir.
Unnur María Bergsveinsdóttir er íslenskur sagnfræðingur sem hefur undanfarna fimm mánuði verið búsett í Mexíkóborg þar sem svínaflensan hefur verið sem skæðust. Hún er ein þeirra sem þar hafa veikst á síðustu vikum og lýsir upplifun sinni af yfirstandandi atburðum í Mexíkóborg í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Á föstudagsmorgninum hringdi vinur minn á Írlandi í mig. Hann var áhyggjufullur eftir að hafa lesið alþjóðlegar fyrirsagnir sem töluðu um hættulega mexíkóska farsótt. Mér fannst fréttirnar hljóma ótrúlega og hugsaði með mér að vinur minn hlyti að hafa misskilið eitthvað eða þá hafa verið að lesa The Sun.
Um leið og ég fór út úr húsi tók ég hins vegar eftir því að eitthvað var í gangi. Strax þennan morgun var áberandi hversu fáir voru á ferli. Utan á söluturnum á horninu héngu forsíður dagblaða sem skýrðu frá því að samkvæmt fyrirskipan yfirvalda hefði öllum skólum í borginni, allt frá grunnskólum til háskóla, verið lokað í tíu daga vegna inflúensufaraldurs. Ég stóð í óratíma og fletti dagblöðum til að reyna að átta mig á stöðu mála en græddi engar haldbærar upplýsingar á því. Enginn fjölmiðlanna virtist vita neitt meira en það að um borgina gengi nú afar smitandi inflúensuvírus. Allar spurðu fyrirsagnirnar sömu spurningarinnar: Hvað er að gerast?
Eina undantekningin á þessari skyndilegu ládeyðu er sú að þar til í síðustu viku heyrðum við svo til aldrei í sírenum. Frá því um helgina hefur hins vegar varla liðið klukkutími án þess að sjúkrabílar keyri götuna okkar vælandi.