Fleiri fái að ráða í bótavinnu

Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Lilja Mósesdóttir þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mbl.is/Ásdís

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, vill sjá samstarf Vinnumálastofnunar við fyrirtæki í landinu stóraukast, í þeim tilgangi að fækka atvinnulausum. Lilja vill að fleiri fyrirtæki fái tækifæri til að ráða inn fólk af atvinnuleysisskrá og borga því fólki laun, gegn því að fá atvinnuleysisbætur þeirra greiddar frá Vinnumálastofnun.

Hugmyndir Lilju tengjast reglugerð sem gefin var út af Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, 9. janúar síðastliðinn. Reglugerðin mælir svo fyrir að atvinnulausa megi ráða inn til fyrirtækja með þessum hætti, til að taka þátt í ,,sérstökum tímabundnum átaksverkefnum sem eru umfram lögbundin og venjuleg umsvif enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði," eins og segir í reglugerðinni. Almennt er gert ráð fyrir að svona ráðningar séu tímabundnar, til eins árs.

Lilja segir þetta þegar byrjað og það hafi nú skilað um 200 störfum. Skilyrðin fyrir þessu séu hins vegar ströng og gæti þurft að rýmka svo að mun meira geti orðið um þetta. Nú sé kominn sá tími að fjöldi fólks hafi verið á atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði eða lengur, en þekkt sé að fólk sem sé á bótum í hálft ár endi oftar en ekki á örorkubótum og eigi mjög erfitt með að koma aftur inn á vinnumarkaðinn.

Samhliða þessu vill Lilja efla hlutverk Vinnumálastofnunar sem vinnumiðlunar og efla aðstoð stofnunarinnar við fólk sem vill afla sér menntunar meðfram hlutastarfi eða fullri vinnu.

Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, segir að þess séu nú dæmi að ráðningar fólks af atvinnuleysisskrá með þessum hætti, til að taka þátt í markaðsátaki innan fyrirtækja, hafi þegar skilað góðum árangri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka