Nýsköpunarfyrirtækið Marorka hefur gert langstærsta samning sinn til þessa, við norska fyrirtækið Kongsberg, sem hannar og selur stjórnkerfi í skip. Marorka hefur þróað orkustjórnunarkerfi fyrir skip, með það að markmiði að draga úr olíunotkun.
Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, einn stofnenda Marorku, segir að með samningnum verði kerfi Marorku bætt við öll kerfi frá Kongsberg. „Við höfum unnið að þessum samningi í fjóra mánuði. Þeir munu nota okkar orkustjórnunarkerfi í öll kerfi sem þeir afhenda. Þetta er langstærsti samningur sem Marorka hefur gert, en þeir afhenda 350 til 400 kerfi á hverju ári,“ segir Jón Ágúst.
Með samningnum munu tekjur Marorku aukast um sem nemur 150 til 350 milljónum króna á næstu tólf mánuðum, sem greiðast í evrum og auka því gjaldeyristekjur þjóðarbúsins sem því nemur. Jón Ágúst segir því ljóst að Marorka sé á leið inn í vaxtarfasa á næsta ári.
Fyrirtækið er nú að bæta við sig starfsmönnum, sem fjölgar líklega úr átján upp í allt að tuttugu og fimm með samningnum. „Við erum að bæta við okkur fólki núna. Bæði forriturum til að vinna á vöruþróunarsviðinu okkar og verkfræðingum,“ segir hann og á þá helst við vélaverkfræðinga sem geti fengist við verkefni sem tengjast orkustjórnun.
Hæfileikafólk af atvinnuleysisskrá gerði gæfumuninn
Ekki var fyrirhafnarlaust að landa samningnum, en Jón Ágúst hefur á hreinu hvað hjálpaði til við það. Fyrirtækið hefur ráðið til sín tvo starfsmenn, fólk sem er á atvinnuleysisskrá, til þess að hjálpa til við sókn í markaðsmálum. Í byrjun ársins gaf félagsmálaráðherra út reglugerð sem heimilaði fyrirtækjum að ráða atvinnulaust fólk og greiða því laun gegn því að fá atvinnuleysisbætur þess greiddar frá ríkinu.
„Það hefur hjálpað okkur alveg gríðarlega,“ segir Jón Ágúst. Auðveldara hafi verið að ráða inn nýtt fólk. Þetta hafi ekki bara verið gert hjá Marorku, heldur fjölmörgum öðrum sprotafyrirtækjum. Hann reiknar með því að ráða á endanum fimm starfsmenn með þessu fyrirkomulagi. „Þetta er alveg gríðarlegt tækifæri,“ segir hann og kveðst þess fullviss um að þetta sé til góðs bæði fyrir fjárhag hins opinbera og fyrir það fólk sem fær vinnuna og fyrirtækið sjálft alveg sérstaklega.
Marorka er í samtökum sprotafyrirtækja, ásamt 44 öðrum fyrirtækjum. Með hinum nýja samningi við Kongsberg færist Marorka nær því markmiði að útskrifast úr hópi sprotafyrirtækja og verða fullskapað fyrirtæki sem starfar eitt og óstutt. Tvö sprotafyrirtæki, NimbleGen og Nikita, náðu þeim áfanga nú fyrir skemmstu, með því að fara yfir einn milljarð króna í veltu á síðasta ári.