Íbúum á Austurlandi gæti fjölgað um fimm til sex þúsund í kringum hugsanleg umsvif olíuiðnaðarins á Íslandi í framtíðinni. Þetta er mat Halldórs Jóhannssonar skipulagsráðgjafa. Þá horfir hann til þess að helmingur þeirra sem kæmu með einhverjum hætti að olíuiðnaði á landinu, starfsmenn og fjölskyldur þeirra, byggi fyrir austan; líklegast á Vopnafirði og Þórshöfn.
„Það er ljóst að eins og staðan er á Íslandi í dag er þetta mjög góður tímapunktur. Það er auðveldara að fá fólk út á land en fyrir aðeins tveimur árum og því raunhæfara að fara út í svona stórverkefni.“ Hann leggur áherslu á að horft sé til margra áratuga í þessum efnum.
„Í Noregi er gert ráð fyrir að olíuiðnaðurinn skapi að minnsta kosti 16.000 bein störf. Það er misjafnt hvernig afleiddu störfin eru talin en þau eru að minnsta kosti jafn mörg. Sumir segja fleiri,“ segir Halldór. „Horfa verður á í sambandi við Drekasvæðið að þar rísi þjónustumiðstöð. Hún verður þá væntanlega á Vopnafirði. Þessi þjónustumiðstöð mun skapa eitthvað í kringum 100 til 200 störf.“ Halldór, sem hefur veitt Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi ráðgjöf varðandi fyrirhugaðan olíuiðnað, horfir til Gunnólfsvíkur í þessu efni.„Það er búið að sýna fram á að Gunnólfssvík í Finnafirði er líklega eitt besta, ef ekki besta, hafnarstæði á norðurhveli jarðar. Þetta er geysilega góður staður. Ölduhæðin er lítil og aðdjúpt og víkin því tilvalin fyrir stórskipahöfn. Þá opnast að sjálfsögðu miklir möguleikar fyrir vinnslu á olíu eða gasi. Í því efni er nærtækast að horfa til olíuhreinsunarstöðvar sem skapar á bilinu 700 til 1.000 bein störf. Áætluð ársverk við að byggja slíka stöð eru ekki færri en 12.000. Ef hún er byggð upp á fjórum árum þýðir það 3.000 ársverk á ári.“ Halldór nefnir að í áætlunum um Drekasvæðið sé talað um að vinnsla í landi geti hafist eftir 10 til 12 ár. „Það þýðir að nærtækt er að reikna með að olíu- og gashreinsunarstöð rísi á Austurlandi og skapi þar 200 störf, að því er talið er. Hvort sem olíuvinnslan verður í Gunnólfsvík eða ekki þarf þjónustu- og öryggismiðstöð í kringum þetta allt saman, það er að segja þyrlur og öryggisskip. Rætt er um að þessi þjónusta skapi í kringum 200 störf,“ segir hann.
Halldór segir að miðað við þær forsendur sem hann hafi sé væntanlega verið að tala um 1.500 bein störf. „Afleidd störf miðað við reynslu Norðmanna eru þá um 1.500 og því alls verið að tala um í kringum 3.000 störf.“