Leikskólar á Akureyri hafa verið opnir frá kl. 7.45 til 17.15 alla virka daga en sá tími verður styttur í annan endann og skólunum lokað kl. 16.15, fyrst og fremst í hagræðingarskyni; með þessum hætti verður dregið úr launakostnaði.
Samkvæmt upplýsingum frá bænum hafa 6-7% barna sem eru á leikskólunum dvalið þar síðasta klukkutímann sem þeir hafa verið opnir.
Frá efnahagshruninu í haust hefur farið fram ítarleg skoðun á rekstri Akureyrarbæjar eins og margra annarra sveitarfélaga. „Það er nauðsynlegt að draga úr kostnaði. Við erum komin alveg inn að beini,“ sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri í Morgunblaðinu í byrjun apríl.
Bæjarstjórinn á Akureyri hefur kallað eftir þjóðarsátt hvað þetta varðar. Nauðsynlegt sé að stíga þessi skref.
Fáeinum dögum eftir að Sigrún Björk lýsti þessu yfir var ákveðið að stytta skólatíma leikskólabarna og foreldrum tilkynnt breytingin bréflega.
Ekki er vitað til þess að formlega hafi verið ákveðið að stytta leikskóladaginn í öðrum af stóru sveitarfélögum landsins en það mun hafa verið rætt.
Viðbrögð foreldra á Akureyri hafa verið þónokkur, eins og búast mátti við, og töluverður fjöldi hefur lýst óánægju með breytingarnar. Þeir eru fyrst og fremst ósáttir sem hafa nýtt sér leikskólann til kl. 17.15 vegna eigin atvinnu en sjá nú fram á að þurfa að hætta fyrr á daginn og verða þar með af einhverjum tekjum.
Í framhaldi af viðbrögðum foreldra ræddi skólanefnd, á fundi 20. apríl, hugmyndir að útfærslu á breyttum tíma sem leikskólarnir eru opnir; að skoðað verði hvort hægt verði að bjóða upp á þann möguleika að foreldrar geti greitt aukalega fyrir tíma frá 7.30-7.45 og 16.15-16.30 ef sex eða fleiri foreldrar óska eftir því í hverjum leikskóla fyrir sig. Nefndin frestaði þá afgreiðslu málsins.
Fyrir skömmu var búið að innrita 230 börn, sem fædd eru árið 2007 og fyrr, í leikskóla bæjarins næsta vetur. Reiknað er með að þau verði eitthvað fleiri. Ef gert er ráð fyrir því að foreldrar 6-7% barnanna hafi hugsað sér að þau yrðu í skólanum til 17.15 er þar um að ræða um það bil 15 börn.
Óljóst er hvort breytingin verður til frambúðar en það þykir allt eins líklegt. Bent hefur verið á að nú þegar sé sumum leikskólanna lokað kl. 16.15 vegna þess hve plássin síðasta klukkutímann eftir það hafa verið illa nýtt.