Aldrei hafa jafnmargir fallið í valinn á jafnskömmum tíma og í spænsku veikinni, sem á einu ári gekk yfir heimsbyggðina. Fórnarlömbin eru talin hafa verið á milli 20 og 100 milljónir. Ýmsir hafa borið svínaflensuna, sem nú geisar, saman við spænsku veikina, sem í upphafi var fremur meinlaus, en blossaði upp að nýju haustið 1918 í mun skæðari mynd og reyndist illvígust ungu og hraustu fólki.
Læknavísindunum hefur fleygt fram á þeim rúmu 90 árum, sem liðin eru frá spænsku veikinni. Árin 1957 og 1968 komu skæðir faraldrar, en þeir voru ekkert í líkingu við spænsku veikina. Heilbrigðisyfirvöld um allan heim óttast að fram komi stökkbreytt inflúensuveira, sem geti breiðst hratt út og valdið miklum usla, og það skýrir varúðarráðstafanirnar, sem gripið hefur verið til um allan heim vegna svínaflensunnar, sem virðist hafa átt upptök sín í Mexíkó í febrúar.