Hátt í 100 manns fengu uppsagnarbréf á Suðurnesjum um þessi mánaðamót. Að sögn Kristjáns G. Gunnarssonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, voru yfirleitt á bilinu þrjár til fimm uppsagnir hjá hverju fyrirtæki sem sagði fólki upp, en langstærsta uppsögnin var hjá Nesprýði, þar sem fimmtíu var sagt upp. Tólf fyrirtæki sögðu upp starfsfólki á Suðurnesjum um þessi mánaðamót.
„Uppsagnarfrestur þessa fólks er minnst einn mánuður og upp í þrjá mánuði. En í þessum hópi eru örfáir sem eru yfir sextugt og geta þá fengið lengri uppsagnarfrest. Þeir eru samt teljandi á fingrum annarrar handar,“ segir Kristján.
Hann kveður mikinn hægagang og tilhneigingu til frestunar í allri starfsemi og framkvæmdum á Suðurnesjum. „Við horfum mjög til þess að álverið komist á fulla ferð sem fyrst, en það eru alltaf einhverjar tafir á því. Það mun breyta mjög miklu.“ Aðspurður segir hann fátt annað á sjóndeildarhringnum sem gæti orðið til þess að minnka atvinnuleysi í bráð.
„Við höfum verið að horfa á þróunina og vorum orðin bjartsýn á að botninum væri nú náð. Sérstaklega í þessum verktakageira. En svo kemur þetta högg,“ segir Kristján. Verkefnastaðan sé einfaldlega orðin mjög dræm hjá verktökum.